Toppahopp yfir Skarðsheiði

Ein stærsta ganga okkar þetta árið var farin laugardaginn 31. ágúst þegar gengið var yfir Skarðsheiðina frá norðri til suðurs.

Rúmlega 20 km ganga á 10 klukkustundum með rúmlega 1400 metra hækkun. Toppuðum Skessuhorn 964 m, Skarðshorn, Heiðarhorn 1054 m og Skarðshyrnu 946 m. Krefjandi en heillandi ganga í gegnum grýtt undirlag þar sem tignarlegir tindar, hryggir og hvassar brúnir eru í aðalhlutverki. Veðurspáin sveik okkur hressilega í þetta sinn en það spillti ekki gleðinni hjá þessum gönguhrólfum.