Elliðatindar á Snæfellsnesi

Elliðatindar á Snæfellsnesi var ein af þessum “nýju” göngum þetta árið. Tindarnir eru sunnan megin á Nesinu, nánar tiltekið austast í Staðarsveitinni. Elliðahamarinn er einkennandi fyrir þetta svæði; stórglæsilegur lóðréttur bergveggur sem stendur fremst á fjallsbrúninni en Elliðatindarnar sjálfir eru ofar og handan við hamarinn.

Eftir að hafa lyft okkur upp á brúnirnar fyrir ofan Lágafell var sveigt til vesturs í átt að Elliðahamrinum. Síðan var stefnan tekin beint inn dalinn á hæsta tindinn (864 m.) sem heimafólk kallar Vesturtindur. Gangan gekk vel en síðasta brekkan upp á það er nokkuð brött og grýtt. Tindurinn er á mjórri egg og maður fær snögglega útsýni yfir allan Breiðafjörðinn þegar maður stígur síðasta skrefið upp á hrygginn…stórkostlegt! Síðustu skrefin upp á tindinn voru ævintýraleg þar sem útsýni út á Snæfellsjökul og hreint um allt opnaðist. 

Gangan var um 14 km löng og tók 6 klst og 10 mínútur.