Steinafjall undir Eyjafjöllum

Hópurinn gekk á Steinafjall undir Eyjafjöllum laugardaginn 8. júní en fjallið er rétt vestan við Þorvaldseyri. Mjög fáfarið fjall af göngufólki enda ekki beint árennilegt á að líta; brattar hlíðar, klettar og risastór björg hvert sem litið er þegar horft er á fjallið frá þjóðveginum.

En leiðin þennan dag var vörðuð snilldarlega vel af Hermanni Árnasyni sem eyddi hluta af sínum uppvaxtarárum á Steinum sem fjallið er nefnt eftir. Svona leiðir þekkja menn ekki nema hafa smalað þarna ár eftir ár, sem er einmitt það sem Hermann gerði ásamt öðrum. Við fengum toppþjónustu enda var Hermann búinn að koma fyrir reipum til að halda í og teinum til að stíga á til þess að hópurinn kæmist upp erfiðasta kaflann. Þetta er á mörkunum að vera fært annars. Við vorum umlukin stórkostlegum klettamyndunum og hrikalegum björgum á uppleiðinni sem einkenna suðurhlíðar fjallsins.

Þegar upp á brún var komið var sögustund hjá Haraldi Erni en hann sagði söguna af því þegar hann fyrstur manna kleif klettinn Ingimund þegar hann var aðeins 16 ára gamall. Við héldum austur að Faxa og þaðan tókum við sveig vestur á Leyni, hæsta tindinn sem er í rúmlega 800 metra hæð. Þarna blasir flottur Eyjafjallajökull við. Veðrið var dásamlegt allan daginn enda voru teknar góðar sólbaðspásur. 6 klst ganga og uþb 11 km.

Þvílíkar gæðastundir á fjöllum!

MYNDIR ÚR FERÐINNI