Huldufjöll og Kötlujökull

13. ágúst 2022

Dagsferð um ævintýraheim undir Mýrdalsjökli

Sannkölluð ævintýraferð þar sem gengið er um stórbrotna náttúru undir suðaustanverðum Mýrdalsjökli. Þátttakendur í þessari dagsgöngu upplifa andstæður sem eiga sér varla hliðstæðu á Íslandi. Gengið er úr Þakgili upp stórskorin mosagræn gil sem einkenna Höfðabrekkuafréttinn. Á Rjúpnagilsbrúnum birtist magnað sjónarspil sem líkja mætti við hringleikahús náttúrunnar. Þar brotnar Mýrdalsjökull fram af brúnunum og spýtir einhverjum hæstu fossum Íslands út úr lóðréttu klettastálinu. Göngum niður í hringleikahúsið í faðm Huldufjalla og komumst í návígi við náttúruöflin sem eru þarna á fleygiferð. Gengið yfir í Hulinsdal sem ber nafn með rentu. Kötlujökull þveraður á jöklabroddum á milli jökuldrýlanna sem eru margar mannhæðir. Gengið aftur upp á Höfðabrekkuafréttinn og síðan eftir fagurgrænum giljum yfir í Þakgil.

Lengd ferðar

Gangan er 20 km löng með 1.100 metra hækkun og tekur 9-10 klst. eftir aðstæðum.

Fyrir hverja?

Gangan höfðar til breiðs hóps útivistarfólks. Ekki er farið fram á sérstaka reynslu af fjallaferðum eða notkun jöklabúnaðar en þátttakendur þurfa að vera tilbúnir í langan dag með tilheyrandi hækkun og lækkun.

Praktísk atriði
 • Gangan hefst og endar í Þakgili.
 • Þátttakendur skipuleggja ferðir og gistingu á eigin vegum. Í Þakgili er gott tjaldstæði og gisting í smýhýsum. Einnig hægt að gista í nágrenninu, t.d. Vík.
 • Mæting í Þakgil kl. 8:30 að morgni brottfarardags. Stuttur fundur og afhending á jöklabúnaði. Gangan hefst stundvíslega kl. 9:00.
 • Akstur frá Reykjavík í Þakgil tekur um 3 til 3,5 klst. Frá Vík í Þakgil um 1 klst.
 • Símasamband er mjög takmarkað í Þakgili.
 • Vegurinn í Þakgil er ekki fær litlum fólksbílum en auðveldlega fær á jepplingum.
Innifalið

Leiðsögn reyndra fararstjóra Fjallafélagsins
Leiga á jöklabúnaði (ísexi og jöklabroddar)

Bókanir/fjöldi

Smelltu á “Greiða ferð” til þess að ganga frá greiðslu með korti. Fjöldi í ferð: lágmark 12 / hámark 24 farþegar.

Helsti búnaður
 • Millistífir eða stífir gönguskór með grófum sóla
 • 35-45 lítra bakpoki með festingum fyrir stafi/ísöxi
 • Ísöxi og jöklabroddar (innifalið)
 • Einangrunarúlpa, húfa og vettlingar og skelfatnaður
 • Gott nesti fyrir lengri dag og uþb 1,5 lítri af vatni/drykkjum
Breytingar

Fjallafélagið áskilur sér rétt til þess að fresta göngu um einn dag ef veðurspá er afgerandi betri næsta dag. Slík tilkynning er send á þátttakendur með 48 klst. fyrirvara og eiga þátttakendur þá kost á að fá ferðina endurgreidda.

Fararstjórar

Fararstjórar eru útivistarhjónin Örvar Þór Ólafsson og Guðrún Árdís Össurardóttir. Þau hafa mikla reynslu af fjallamennsku og leiðsögn innanlands sem utan.

 

 

TÍMALENGD

9 - 10 klst.

TEGUND FERÐAR

Gönguferð

INNIFALIÐ

Leiðsögn og jöklabúnaður

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

14.900 kr.

Availability: In stock

Product price
Additional options total:
Samtals:

DAGSKRÁ

Laugardagur 13. ágúst

Mæting í Þakgil kl. 8:30. Stuttur fundur og afhending á jöklabúnaði. Gangan hefst stundvíslega kl. 9:00 og tekur 9-10 klst.

SKRÁNING Í PRUFUTÍMA

Við bjóðum upp á frían prufutíma fyrir áhugasama. Fylltu út formið hér fyrir neðan og haft verður samband við þig varðandi næsta lausa tíma.