Helgina 9. til 12. ágúst lögðum við land undir fót og héldum til Vestfjarða. Tveir göngudagar voru skipulagðir. Fyrri daginn gengum við uppúr botni Dýrafjarðar upp á hápunkt Glámuhálendins sem heitir Sjónfríð og er í 920 m. yfir sjávarmáli. Þetta er falleg gönguleið þar sem öll flóran af vestfirsku ölpunum verður á vegi manns, allt frá birkiskóginum og fallegum flúðum upp í mosagróið stórgrýtið sem hylur allt undir fæti þegar upp á hásléttuna er komið. Gangan var 15 km löng og tók 7 klst og 30 mínútur.
Seinni dagurinn var algjört bingó þar sem hópurinn fékk þvílíka veðurblíðu á hæsta tindi Vestfjarða, Kaldbak sem er 998 m. yfir sjávarmáli. Gengið var úr Kvennaskarði eftir hrygg sem liggur beinustu leið á tindinn. Svolítið klöngur er í efsta hlutanum sem er krefjandi fyrir þá sem eru ófótvissir en allt gekk vel og áður en við vissum stóðum við á toppnum og með þvílíkt dýrðarútsýni í allar áttir.