FJALLA- HJÓLA- OG SKÍÐAÆFINGAR
Vikulegar æfingar Fjallafélagsins eru fyrir alla sem vilja nýta útivistina til að auka þol og styrk og byggja sig þannig upp fyrir stærri áskoranir. Æfingarnar eru jafnt fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í útivistinni sem og þá sem lengra eru komnir. Við leggjum þannig áherslu á að hver og einn hreyfi sig á sínum forsendum. Við bendum byrjendum einnig á Grunnnámskeið Fjallafélagsins en ekki er skilyrði að hafa farið á þau til að mæta á æfingar.
Æfingarnar eru frábær leið til að æfa í hóp og fá fræðslu frá þjálfara um útivist.
Æfingarnar eru á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 18 og taka um 1-3 klst. og fara fram á höfuðborgarsvæðinu eða nágrenni þess. Æfingarnar eru allt árið um kring. Upplýsingar um næstu æfingu eru gefnar út í hádeginu á mánudegi og taka mið af veðurspá og öðrum aðstæðum.
Við æfum í náttúrunni á fjölbreyttan hátt:
- Fjallgöngur
- Fjallahjól
- Utanbrautarskíði og fjallaskíði
Fjallgöngur: Megin áherslan er á fjallgönguæfingar. Við æfum á Esjuna að Steini, Úlfarsfell, Helgafell ofan Hafnarfjarðar og öðrum fjöllum í nágrenni Reykjavíkur. Einnig tökum við brekkuspretti og aðrar þolæfingar. Yfir bjartasta tímann aukum við fjölbreytni og förum lengra út frá borginni til æfinga.
Fjallahjól: Við förum reglulega út að leika á fjallahjólum. Þessar æfingar eru fyrir allar tegundir fjallahjóla og jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna. Hjólaleiðin og byrjunarstaður verður gefin út fyrirfram. Við hjólum út frá eigin getu og leggjum áherslu á að æfa á eigin forsendum. Æfingarnar fara fram í Heiðmörk, Öskjuhlíð og fleiri stöðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem eiga ekki fjallahjól fá fjallgönguverkefni í staðinn.
Utanbrautarskíði og fjallaskíði: Yfir veturinn bætum við inn nokkrum æfingum á utanbrautarskíðum og fjallaskíðum. Skíðaæfingarnar fara fram í Bláfjöllum og fleiri stöðum í nágrenni höfuðborgarinnar. Við bendum á að hægt er að leigja skíði. Þeir sem ekki hafa aðgang að skíðum fá fjallgöngu verkefni í staðinn.
Æfingarnar eru innifaldar í félagsgjaldi Fjallafélagsins. Við bendum á að mörg stéttarfélög styrkja félagsmenn sína til þátttöku í æfingum Fjallafélagsins.
Komdu í frían prufutíma. Sendu okkur skilaboð á Facebook eða á fjallafelagid@fjallafelagid.is.