Mont Blanc hringurinn 8.8.2024

8.8.2024

Mont Blanc hringurinn (Tour du Mont Blanc eða TMB) er ein vinsælasta gönguleið Alpanna og ekki að ástæðulausu. Hún býður upp á einstaka náttúrufegurð og óviðjafnanlegt útsýni. Grænir dalir, fjallaskörð, jöklar og glæsilegir tindar er meðal þess sem ber fyrir augu. Þessi ferð er skemmtileg blanda af stuttbuxnaferð og jöklaferð og allt þar á milli. Einnig eru mörg tækifæri til að njóta franskrar og ítalskrar menningar í mat og drykk.

Í þessari ferð förum við besta hluta TMB hringsins frá Chamonix til Courmayeur og áfram að landamærum Sviss. Hápunktur ferðarinnar er svo ganga á jökli innan um fjallarisa og komumst við þá í beina snertingu við fjallið hvíta eins og Mont Blanc er nefnt.

Ferðin verður farin 8 til 15. ágúst 2024 og eru gengnar fimm dagleiðir af Mont Blanc hringnum og er hæst farið í 2.500 m. í fjallaskörðum.  Við höldum síðan í kláfi frá Courmayeur og yfir fjallgarðinn og komum við á tindi Aiguille du Midi 3.842 m. Síðan förum við í magnaða jöklagöngu frá Pointe Helbronner í 3.400 m. hæð.

Innifalið:
  • Undirbúningsfundur
  • Rútuferðir, frá Genf til Chamonix og til baka
  • Rútuferð frá Chamonix til Les Contamines og flutningur á farangri
  • Gisting í 7 nætur, 3 í fjallaskála og 4 á hóteli m.v. tvo í herbergi
  • 7 morgunverðir
  • 3 kvöldverðir í fjallaskálum
  • Kláfur frá Courmayeur upp í Pt. Helbronner og kláfur frá Aguille du Midi niður til Chamonix
  • Íslensk fararstjórn

Hægt er að fá gistingu í eins manns herbergi á hótelum gegn aukagjaldi kr. 39.000.
Hægt að framlengja ferðina og eru þátttakendur þá á eigin vegum.
Flug er ekki innifalið í ferðinni en við höfum tekið frá flug til Genf sem þátttakendur geta nýtt sér.

Fjöldi þátttakenda:

Hámarksfjöldi 14

Fararstjóri:

Haraldur Örn Ólafsson

Undirbúningur:

Þessi ferð er krefjandi og mikilvægt er að þátttakendur þjálfi sig vel fyrir ferðina.

Búnaður:

Búnaðarlisti verður sendur til þátttakenda, en tekið skal fram að fyrir jöklagönguna á 7. degi þarf m.a. að hafa skjólgóðan fatnað, gönguskó, mannbrodda, ísöxi, klifurbelti og karabínu. Ekki þarf þó að bera jöklabúnaðinn með allan tímann því hann verður sendur á hótelið okkar í Courmayeur.

Tryggingar:

Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa forfalla- og ferðatryggingu. Fjallafélagið mælir með að þátttakendur kaupi sérstaka forfallatryggingu um leið og ferðin er bókuð. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tryggingin nái yfir kostnað við ferðina í heild sinni (ekki aðeins yfir fargjald og gistikostnað).

Bókun:

Hægt er að bóka ferðina með því að smella á „Bóka ferð“ og greiða staðfestingargjald. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fjallafelagid@fjallafelagid.is. Staðfestingargjald er kr. 45.000.

Skilmálar:

Dagskrá ferðarinnar getur breyst og er sett fram með fyrirvara um bókanir á gistingu. Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér skilmála Fjallafélagsins sem hægt er að hálgast hér: https://fjallafelagid.is/skilmalar/

TÍMALENGD

8 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá lýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

299.000 kr.

Out of stock

Uppselt er í ferðina / hópinn. Þú getur skráð þig á biðlista og við látum þig vita um leið og hægt er að skrá sig að nýju.

DAGSKRÁ

Dagur 1, fimmtudagur 8. ágúst:

Flogið til Genfar í Sviss þar sem við lendum um kl. 13:00 og ökum í rúma klukkustund til franska bæjarins Chamonix sem er einn stór dótakassi fyrir fjallafólk. Frjáls tími það sem eftir er dags og gist á hóteli.

Dagur 2, föstudagur 9. ágúst:

Keyrum til þorpsins Les Contamines þar sem við hefjum gönguna. Hækkum okkur fljótlega eftir gömlum rómverskum stíg, alla leið upp í fjallaskarðið Col de la Croix du Bonhomme þar sem við gistum í skála sem fær allar sínar  vistir með þyrlu.
Vegalengd 12 km. Hækkun 1.250 m. Lækkun 0 m.

Dagur 3, laugardagur 10. ágúst:

Frá Croix du Bonhomme er gengið yfir annað fjallaskarð þar sem við náum hæsta punkti ferðarinnar í 2.665 m. hæð. Síðan er snörp lækkun uns komið er að Les Mottets þar sem við borðum hádegismat. Þá tekur við ansi brött fjallshlíð sem endar á landamærum Frakklands og Ítalíu þar sem Mt. Blanc blasir við. Þaðan er þægileg ganga niður í ótrúlega fallega staðsettan skála, Refugio Elisabetta, sem stendur undir skriðjökli.
Vegalengd 18 km. Hækkun 1.100 m. Lækkun 1.200 m.

Dagur 4, sunnudagur 11. ágúst:

Gengið frá Elisabetta meðfram fjallshlíð þar sem útsýnið er stórfenglegt á Mont Blanc, tindana í kring, skriðjökla, jökulruðninga o.fl. Ógleymanlegur dagur. Endum á hóteli í Courmayeur.
Vegalengd 17 km. Hækkun 530 m. Lækkun 1430 m.

Dagur 5, mánudagur 12. ágúst:

Gengið frá Courmayeur til fjallaskálans Rifugio Bonatti, sem er einn sá flottasti á TMB og  býður upp á dásemdar mat og snyrtilegan svefnskála. Áframhaldandi stórfenglegt útsýni yfir á suðurhlið Mt. Blanc.
Vegalengd 10 km. Hækkun 870 m. Lækkun 350 m.

Dagur 6, þriðjudagur 13. ágúst:

Frá Bonatti skálanum göngum við 5 km. en höldum svo niður efst í dalin Val Ferret. Þar tökum strætó til baka til Courmayeur og hvílum það sem eftir er dags. Í bænum er gaman að skoða safn sem er tileinkað fjallaleiðsögumönnum Alpanna, njóta ítalska matarins, fegurðar  bæjarins og ekki síst að slaka vel á og undirbúa okkur fyrir jöklagönguna daginn eftir. Gisting á hóteli.

Dagur 7, miðvikudagur 14. ágúst:

Við stefnum hátt í dag og byrjum á að taka kláf snemma um morguninn upp á Pt. Helbronner í 3462 m. hæð þar sem opnast stórbrotið útsýni til fjallarisanna. Við höldum síðan áfram með minni kláfum yfir til Aiguille du Midi 3.842 m. en það er mikil upplifun að upplifa að standa upp á slíkum fjallatindi. Við tökum síðan kláfinn til baka og förum í spennandi jöklagöngu frá Pt. Helbronner. Jöklagangan er með fyrirvara um aðstæður og ástand jökulsins. Við endum daginn aftur í Courmayeur og gistum á hóteli.

Vegalengd 5 km. Hækkun 100 m. Lækkun 100 m.

Dagur 8, fimmtudagur, 15. ágúst:

Heimferð. Rúta frá Courmayeur til flugvallarins í Genf.