Mont Blanc hringurinn seinni hluti 16.8.2024

16.8.2024

Mont Blanc hringurinn (Tour du Mont Blanc eða TMB) er ein vinsælasta gönguleið Alpanna og ekki að ástæðulausu. Hún býður upp á einstaka náttúrufegurð og óviðjafnanlegt útsýni. Grænir dalir, fjallaskörð, jöklar og glæsilegir tindar er meðal þess sem ber fyrir augu. Mörg tækifæri til að njóta matarmenningar Ítalíu, Sviss og Frakklands.

Í þessari ferð lokum við hringnum enda er hún hugsuð fyrir þá sem hafa farið fyrri hlutann með okkur á síðustu árum. Það er þó ekki síður góð hugmynd að byrja kynnin af TMB hringnum í Courmayeur og ganga til móts við Chamonix. Hápunktur ferðarinnar að koma upp í Balme skarðið og sjá yfir allan Chamonix dalinn og hæsta tind Mont Blanc. Síðan tekur við einstakur dagur þar sem gengið er upp að Lac Blanc þar sem fjallarisarnir speglast í vötnunum.

Ferðin verður farin 16 til 23. ágúst 2024 og eru gengnar 6 dagleiðir af Mont Blanc hringnum.

Innifalið:
  • Rútuferðir, frá flugvellinum í Genf til Courmayeur
  • Rútuferð frá Chamonix út á flugvöllinn í Genf
  • Gisting í 7 nætur, 6 á hótelum og eina nótt í fjallaskála
  • 7 morgunverðir
  • 5 kvöldverðir
  • Íslensk fararstjórn

Flug er ekki innifalið í ferðinni en við höfum tekið frá flug til Genf sem þátttakendur geta nýtt sér.

Fjöldi þátttakenda:

Hámarksfjöldi 14

Fararstjóri:

Haraldur Örn Ólafsson

Undirbúningur:

Þessi ferð er krefjandi og mikilvægt er að þátttakendur þjálfi sig vel fyrir ferðina.

Búnaður:

Búnaðarlisti verður sendur til þátttakenda.

Tryggingar:

Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa forfalla- og ferðatryggingu. Fjallafélagið mælir með að þátttakendur kaupi sérstaka forfallatryggingu um leið og ferðin er bókuð. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tryggingin nái yfir kostnað við ferðina í heild sinni (ekki aðeins yfir fargjald og gistikostnað).

Bókun:

Hægt er að bóka ferðina með því að smella á „Bóka ferð“ og greiða staðfestingargjald. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fjallafelagid@fjallafelagid.is. Staðfestingargjald er kr. 45.000.

Skilmálar:

Dagskrá ferðarinnar getur breyst og er sett fram með fyrirvara um bókanir á gistingu. Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér skilmála Fjallafélagsins sem hægt er að hálgast hér: https://fjallafelagid.is/skilmalar/

TÍMALENGD

8 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá lýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

299.000 kr.

Out of stock

Uppselt er í ferðina / hópinn. Þú getur skráð þig á biðlista og við látum þig vita um leið og hægt er að skrá sig að nýju.

DAGSKRÁ

Dagur 1, föstudagur 16. ágúst. Courmayeur:

Flogið til Genf í Sviss þar sem við lendum um kl. 13:00 og ökum í tvær klukkustundir til ítalska bæjarins Courmayeur. Bærinn er einstaklega fallegur og yfir gnæfa hæstu fjöll Alpanna. Frjáls tími það sem eftir er dags og gist á hóteli.
Innifalið: Rúta frá flugvelli og gisting á fallegu fjölskylduhóteli í tveggja manna herbergjum.

Dagur 2, laugardagur 17. ágúst. Courmayeur til La Fouly:

Eftir góðan morgunverð tökum við strætó frá Courmayeur upp dalinn Val Ferret þar sem gangan hefst. Við göngum að fjallaskálanum Elena þar sem við getum fengið okkur ekta ítalskan kaffibolla og jafnvel eitthvað sætt með. Þaðan höldum við upp í fjallaskarðið Grand Col Ferret sem er í 2537m hæð en þar erum við á landamærum Ítalíu og Sviss. Útsýnið úr skarðinu er einstakt í bæði til baka yfir Val Ferret, Val Veny og Mont Blanc sem og fram á veginn til Sviss. Á leiðinni til baka niður úr skarðinu tekur svissneska sveitasælan á móti okkur og víða má sjá nautgripi, kindur og geitur. Við komum svo til lítils fjallaþorps sem hetir La Fouly þar sem við gistum á hóteli um nóttina.
Vegalengd 12 km. Hækkun 550 m. Lækkun 1.000 m.
Innifalið: Morgunmatur og kvöldmatur. Gisting á góðu hótlei í La Fouly í tveggja manna herbergi.

Dagur 3, sunnudagur 18. ágúst. La Fouly til Champex-Lac:

Þennan dag göngum við um fallegar svissneskar sveitir eftir dalbotninum. Það eru engar stórar brekkur þennan dag og því tækifæri til að njóta göngunnar og skoða smábæi og þorp eins og þorpið Les Arlaches þar sem við sjáum hvernig fólk hefur búið í Ölpunum um aldir. Í lok dags komum við að Champex vatni þar sem við getum tekið sundsprett.
Vegalengd 15 km. Hækkun 550 m. Lækkun 650 m.
Innifalið: Morgunmatur og kvöldmatur. Gisting á góðu hóteli í Champex-Lac í tveggja manna herbergjum.

Dagur 4, mánudagur 19. ágúst. Champex-Lac til Trient:

Dagurinn byrjar rólega en síðan tekur við hækkun upp í Alpage Bovine 1.987m. þar sem við njótum útsýnis yfir Martigny héraðið og svissnesku dalina Valais. Síðan tekur við ganga í skarpið Forclaz 1.526m. og þaðan neiður í þorpið Trient.
Vegalengd 16 km. Hækkun 800 m. Lækkun 950 m.
Innifalið: Morgunmatur og kvöldmatur. Gisting á góðu hóteli í Trient.

Dagur 5, Þriðjudagur 20. ágúst. Trient til Argentiere:

Við yfirgefum nú Sviss og höldum til Frakklands og er þetta lengsti göngudagurinn í ferðinni. Við göngum upp í fjallaskarðið Col du Balme þar sem opnast ógleymanlegt útsýni fyrir Chamonix dalinn og til Mont Blanc fjallgarðsins. Við höldum síðan niður eftir fallegum stígum til þorpsins Le Tour og endum daginn á hótelini í bænum Argentiere.
Vegalengd 16 km. Hækkun 1.100 m. Lækkun 1.100 m.
Innifalið: Morgunmatur og kvöldmatur. Gisting á góðu hóteli í Argentiere í tveggja manna herbergjum.

Dagur 6, miðvikudagur 21. ágúst. Argentiere til Flégère:

Þetta er einstakur göngudagur þar sem við förum upp stigana frægu til Lac Blanc vatnanna og horfum á fjöllin speglast í þeim. Þessi leið er þekkt fyrir einstakt útsýni sem hefur prýtt ótal póstkortin. Fyrir neðan er Chamonix dalurinn sem er kórónaður með sjálfum Mont Blanc tindi. Við endum daginn við fjallaskálann Flégère sem er með óviðjafnanlegu útsýni.
Vegalengd 9 km. Hækkun 1.100 m. Lækkun 550 m.
Innifalið: Morgunmatur og kvöldmatur. Gisting í fjallaskála í Flégère í kojum. 

Dagur 7, fimmtudagur 22. ágúst. Flégère til Chamonix:

Þetta er síðasti dagur göngunnar. Við höldum áfram eftir fjöllunum fyrir ofan Chamonix og lækkum okkur svo í eftir fallegum skógarstígum niður til Chamonix. Við komum til bæjarins um hádegi og eigum því góðan tíma til að njóta allra þeirra dásemda sem hann hefur uppá að bjóða. Hægt er að bóka klifur, flúðasiglingar, via-ferrata klifur, paragliding flug osfrv. eða bara slaka á og upplifa mannlífið í þessari höfuðborg fjallamennskunnar.
Vegalengd 8 km. Hækkun 0 m. Lækkun 900 m.
Innifalið: Morgunmatur. Gisting á góðu hóteli í Chamonix í tveggja manna herbergjum.

Dagur 8, föstudagur, 23. ágúst. Heimferð:

Heimferð. Rúta frá Chamonix til flugvallarins í Genf.
Innifalið: Morgunverður og rúta út á flugvöll í Genf.