Kólumbía – Eldfjöll, kaffi og Karíbahaf 19. janúar 2026

19.01. 2026

Við endurtökum magnaða ferð til Kólumbíu sem er ein af földu perlum Suður-Ameríku. Fjölbreytileiki er það sem einkennir menningu og náttúru þessa einstaka lands. Í Kólumbíu er að finna heillandi borgir sem iða af mannlífi, græna regnskóga, gullnar strendur Karíbahafs og snæviþökt fjöll.

Vaxpálmar

Ímynd Kólumbíu er tengd tímabili þegar eiturlyfjabarónar réðu ríkjum en fæstir vita að miklar breytingar hafa átt sér stað í landinu síðustu 20 ár og hefur flestu verið snúið til betri vegar. Þar sem áður var varasamt að ferðast hafa listamenn tekið völdin og gestir eru boðnir velkomnir.

Við byrjum á að skoða sögulega staði í Bógóta höfuðborg Kólumbíu. Þaðan höldum við til svæðis sem nefnist Kaffiþríhyrningurinn en eins og nafnið ber með sér þá er hið heimsfræga kólumbíska kaffi framleitt þar. Svæðið er á heimsminjaskrá UNESCO (Coffee Cultural Landscape).

Við göngum fjögurra daga magnaða gönguleið um stórbrotna náttúru í hlíðum Andesfjallanna. Leiðin liggur í hlíðum eldfjallsins Tolima sem er innan Los Nevados þjóðgarðsins. Gangan endar í bænum Salento sem er miðpunktur kaffihéraðsins og vinsæll ferðamannastaður. Hér gefum við okkur góðan tíma til að upplifa besta kaffi í heimi og hvernig það verður til. Einnig skoðum við náttúruperlur á svæðinu.

Ferðin endar slökun og skoðunarferðum við Karíbahafið í sögufrægu borginni Cartagena.

Tolima fjall

Fimm ástæður til að ferðast til Kólumbíu
  • Náttúrufegurð
  • Mannlífið
  • Kaffi
  • Maturinn
  • Strendur Karíbahafsins
Fararstjóri:

Haraldur Örn Ólafsson

Fjöldi þátttakenda:

Lágmark 10 og hámark 14

Búnaður:

Búnaðarlisti verður sendur til hópsins.

Tryggingar:

Athugið að engar tryggingar eru innifaldar í verði ferðarinnar og mikilvægt er að þátttakendur séu að fullu tryggðir. Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa forfalla- og ferðatryggingu. Fjallafélagið mælir

Cartagena

með að þátttakendur kaupi sérstaka forfallatryggingu um leið og ferðin er bókuð. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tryggingin nái yfir kostnað við ferðina í heild sinni (ekki aðeins yfir fargjald og gistikostnað).

Innifalið:
  • Íslensk leiðsögn
  • Innlendir leiðsögumenn
  • Skoðunarferðir skv. ferðalýsingu
  • Tvö innanlandsflug
  • Rútuferðir skv. ferðalýsingu
  • Öll gisting
  • Matur skv. ferðalýsingu
Ekki innifalið:
  • Millilandaflug
  • Drykkir
  • Matur sem ekki er í ferðalýsingu hér að neðan
  • Þjórfé
Bókun:

Hægt að bóka ferðina hér á síðunni með því að smella á “Bóka ferð”. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fjallafelagid@fjallafelagid.is.

Einstaklingsherbergi:

Aukagjald fyrir einstaklings herbergi er 54.000 kr

Skilmálar:

Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér skilmála Fjallafélagsins sem hægt er að hálgast hér: https://fjallafelagid.is/skilmalar/

 

TÍMALENGD

13 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá lýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

kr. 545.000

Availability: In stock

Product price
Additional options total:
Samtals:

DAGSKRÁ

Dagur 1, mánudagur 19. janúar.  Komið til Bogóta

Velkomin til höfuðborgar Kólumbíu! Þar sem millilandaflug er ekki innifalið í þessari ferð, er það á ábyrgð hvers og eins að bóka það. Fjallafélagið sendir þátttakendum tillögu að flugi. Við gistum á góðu hóteli í Bogotá.

Innifalið: Rúta frá flugvelli og gisting

Dagur 2, þriðjudagur 20. janúar. Skoðunarferð um Bogóta

Við förum í skoðunarferð um sögulegan hluta Bogóta sem byggður var á nýlendutímanum. Við förum í kláf á Monserrate hæðina og skoðum kirkjuna sem stendur þar hátt yfir miðborginni í 3.152 m. hæð og njótum útsýnisins. Göngum um hið sögulega La Candelaria hverfi, skoðum La Plaza Bolivar og hið heimsfræga Gullsafn. Lengd: 6-7 klst. Gist á sama hóteli.

Innifalið: morgunverður, gisting og skoðunarferð

Dagur 3, miðvikudagur 21. janúar.  Skoðunarferð í Chingaza þjóðgarðinn og ganga að Siecha vötnum (3620 m)

Við tökum daginn snemma og ökum í Chingaza þjóðgarðinnog göngum að Siecha vötnunum (3620 m). Við skoðum einstaka náttúru svæðisins þessa hálenda þjóðgarðs. Í vötnunum hafa fundist merkustu minjar úr gulli frá frumbyggjum Kólumbíu, m.a. Muisca báturinn sem einnig er kenndur við El Dorado. Talið er að hér hafi farið fram athafnir þar sem höfðingi Muisca fólksins var þakinn í gulli sem síðan var fórnað í vatnið.  Hæðarhækkun 470 m. Gönguvegalengd:  10 km, Göngutími 5-6 klst.  Gist á sama hóteli.

Innifalið: Gisting, skoðunarferð, morgunverður og kvöldverður. 

Dagur 4, fimmtudagur 22. janúar. Bogotá – Ibague – La Florida smábýlið (2010 m)

Við tökum daginn snemma og fljúgum með innanlandsflugi frá Bogotá til borgarinnar Ibague. Borgin er höfuðborg Tolima héraðs og er við rætur Los Nevados þjóðgarðsins. Við höldum svo áfram með jeppa eftir malarvegum að heillandi smábýlinu La Florida þar sem við gistum í tvær nætur. Frá veginum er um 20 mínútna ganga að gististaðnum en farangur verður fluttur af hestum. Þetta er einstakur staður í hlíðum eldfjallsins Cerro Machín. Á býlinu er ræktað kaffi og ávextir og á staðnum er heit sundlaug. Gistingin bæði er í herbergjum og í tjöldum.  

Innifalið: Innanlandsflug, bílferð, gisting í tjöldum eða herbergjum, morgunverður og kvöldverður.

Dagur 5, föstudagur 23. janúar. Ganga í kringum elfjallið Machín frá La Florida

Í dag göngum við í kringum elfjallið Machín. Göngustígarnir geta verið nokkuð krefjandi og liggja um regnskóga með ægifögru útsýni. Hæðarhækkun: 400 m, gönguvegalengd 6 km, göngutími: 4 tímar

Innifalið: Leiðsögn, gisting á sama stað, allar máltíðir. 

Dagur 6, laugardagur 24. janúar. Gengið til bæjarins Toche (2000 m)

Eftir góða hvíld höldum við af stað niður í Toche dalinn. Leiðin liggur um fjallendi þar sem eru kaffi- og bananaekrur. Við fáum tækifæri til að upplifa framandi landslag og mannlífið í fjöllunum. Við endum gönguna í bænum Toche sem er þjónar svæðinu sem söfnunarstaður þaðan sem afurðir svæðisins eru fluttar á markaði Ibague og Calarca. Bærinn hef haldið sínum upprunalega stíl sem einkennir kaffihéruð Kólumbíu. Við gistum yfir nótt á einföldu hóteli. Gönguvegalengd er 12 km. Sem tekur um 6 klst.

Innifalið: Leiðsögn, trúss, gisting á einföldu hóteli í tveggja manna herbergjum, allar máltíðir.

Dagur 7, sunnudagur 25.janúar. Gengið um vaxpálmaskóga 

Í dag fáum við að kynnast hinum einstöku vaxpálmum sem eru hæstu pálmatré í heimi og geta náð allt að 60m. hæð. Við byrjum á að fá far með jeppum að upphafsstað göngunnar í 2.690m. hæð þar sem ævintýrið okkar hefst í gegnum vaxpálmaskóginn. Göngunni lýkur bænum La Cabaña de Doña Marleni (2640 m) þar sem við njótum Aguapanela með osti. Við tökum okkar aftur far með jeppum til La Carbonera sem er einstakur útsýnisstaður. Gisting er skálagisting á bóndabæ. Gönguvegalengd er 8 km sem tekur 6 klst. Hæðarhækkun er um 500m.

Innifalið: Leiðsögn, trúss, skálagisting á bóndabæ, allar máltíðir.

Dagur 8, mánudagur 26. janúar. Gengið til bæjarins Salento (1.919m.)

Í dag göngum við að mestu niður í móti um fornan stíg er nefnist Camino Nacional og er frá nýlendutímanum. Njótum fallegs útsýnis og höldum áfram niður á gróskumiklar kaffiplantekrur Salento-svæðisins. Eftir að komið er til Salento er frjáls tími til að kanna þennan heillandi bæ. Við gistum á Hotel Salento Plaza. Gönguvegalengd er 12 km. Sem gengin er á 5 klst. Lækkun: 700m. 

Innifalið: Leiðsögn, trúss, gisting á góðu hóteli, morgunverður og hádegisverður.

Dagur 9, þriðjudagur 27. janúar. Kaffiupplifun

Við tökum daginn rólega en á dagskrá er mögnuð kaffiupplifun. Fræðumst um kaffiframleiðsluna frá fræi til kaffibollans. Við fáum kaffismökkun til að fræðast um mismunandi gerðir og eiginleika kaffisins frá Kólumbíu. Seinnipartinn er frjáls tími til að njóta þessa litríka miðpunktar í kaffihéraði Kólumbíu (Zona Cafetera). Gisting á sama hóteli í Salento.

Innifalið: Gisting, morgunverður og kaffiupplifun.

Dagur 10, miðvikudagur 28. janúar. Innanlandsflug til Cartagena við Karíbahafið

Við yfirgefum Kaffihéraðið og höldum til borgarinnar Cartagena við Karíbahafið. Hópnum er ekið út á flugvöll í borginni Pereira þar sem við tökum innanlandsflug til Cartagena. Cartagena er einstaklega litrík og áhugverð borg sem var stofnuð 1533 á nýlendutímanum. Hún var aðal höfn Spánverja í Karíbahafið á sínum tíma. Við gistum á góðu hóteli. Síðdegis förum við í gönguferð innan gömlu borgarmúranna með leiðsögumanni en þessi hluti borgarinnar er á lista UNESCO yfir menningarverðmæti.

Innifalið: Gisting á góðu hóteli, morgunverður, innanlandsflug, akstur til og frá flugvöllum og leiðsögn. 

Dagur 11, fimmtudagur 29. janúar. Skoðunarferð um Cartagena

Við förum í skoðunarferð með leiðsögumanni og skoðum sögulegar minjar Cartagena, eins og San Felipe virkið sem var mesta hernarðarmannvirki Spánverja á nýlendutímanum. Síðan skoðum við Popa klaustrið þar sem er fallegt útsýni yfir borgina. Einnig gefst góður tími til að versla og njóta þeirra góðu veitinga sem borgin hefur uppá að bjóða. 

Innifalið: Gisting, skoðunarferð og morgunverður.

Dagur 12, föstudagur 30. janúar. Frjáls dagur.

Frjáls dagur í Cartagena. Tilvalið er að fara á ströndina. Einnig er fjöldi skoðunarferða í boði svo sem sigling um Rosario eyjar.

Innifalið: Gisting og morgunverður.

Dagur 13, laugardagur 31. janúar.  Heimferð.

Komið er að heimferð og við höldum út á flugvöll.

Innifalið: Morgunverður og akstur út á flugvöll.