Klettastígar Dólómítana 9.9.2023

9.9.2023

 • Staða ferðar:  Lágmarksþátttöku hefur ekki verið náð.
Draumur í Dóló

Ítölsku Dólómítarnir eru heillandi útivistarparadís sem íslenskt fjallafólk verður að upplifa! Þeir bjóða ekki bara upp á frábærar skíðabrekkur fyrir veturinn heldur einnig risastórt net af göngustígum, hjólastígum, Via ferrata klifurleiðum og fjallaskálum. Þessi ferð er blanda af fallegum göngum, ógleymanlegu brölti og klifri ásamt sjarmerandi bæjarlífinu í Cortina d´Ampezzo sem er sannkallað hjarta Dólómítana. Örfáir Íslendingar hafa prófað Via ferrata kifurleiðir og hér er því tækifæri til að prófa eitthvað nýtt. Ferðin verður farin 9. – 16. september 2023 og munum við fara meðalerfiðar Via ferrata leiðir. Við gistum hóteli í miðbæ Cortina sem er þekktur fyrir sjarmerandi byggingar, góða veitingastaði, útivistarvöruverslanir og fleira. Á heimleiðinni er gist síðustu nóttina í Feneyjum þar sem sem tækifæri gefst á að njóta þessarar einstöku borgar. Flogið er heim með Wizz air frá Feneyjum.

Via ferrata – hvað er það?

Via ferrata þýðir “járnvegur” og vísar til stálvíra og stiga sem er fléttað inn í gönguleiðir til þess að ferðafólk komist leiðar sinnar með öruggum hætti. Þessar leiðir voru fyrst lagðar með skipulögðum hætti í fyrri heimsstyrjöldinni en þær eru um 600 talsins í Dólómítunum. Vírinn er festur í bergið með reglulegu millibili en ferðamaðurinn notar tvær karabínur, sem tengjast klifurbelti með sérstöku via ferrata “kitti” til þess að tryggja sig í vírinn. Fyrir þá sem ekki hafa prufað Via ferrata áður er góðar líkur á að mikil spenna og gleði geri vart við sig!

Ferðin er hugsuð fyrir fólk sem er í góðu líkamlegu formi, er ekki lofthrætt og ræður við brölt og príl í miklum bratta. Klifurreynsla er ekki nauðsynleg. Via ferrata leiðir eru flokkaðar eftir erfiðleikastigi frá 1-6 og þær leiðir sem við munum fara í þessari ferð eru allar í flokki 2 eða 3.

Innifalið
 • 8 daga ferð með íslenskri fararstjórn
 • Akstur til og frá flugvelli m.v. þau flug sem Fjallafélagið mælir með
 • Gisting á þriggja stjörnu hóteli með morgunverði í miðbæ Cortina (6 nætur)
 • Þrír sameiginlegir kvöldverðir í Cortina (sjá lýsingu)
 • Öll leiðsögn og akstur á göngudögum
 • Leiga á Via ferrata “kitti”
 • Undirbúningsfundur og búnaðarlisti

Ekki innifalið:

 • Millilandaflug
 • Hádegisverðir
 • Þrír kvöldverðir í Cortina (sjá lýsingu)
 • Gisting og kvöldverður fyrir síðustu nótt ferðarinnar í Feneyjum

Hægt er að fá gistingu í eins manns herbergi á hóteli gegn aukagjaldi. Hægt er að framlengja ferðina og eru þátttakendur þá á eigin vegum. Flug er ekki innifalið í ferðinni og sér hver og einn þátttakandi um að bóka flug en Fjallafélagið mun benda á ákveðin flug sem henta frá Íslandi.

Fjöldi þátttakenda

Lágmarksfjöldi 10 – hámarksfjöldi 12. Skrifleg staðfesting verður send á skráða þátttakendur þegar lágmarksfjölda er náð.

Tryggingar

Athugið að engar tryggingar eru innifaldar í verði ferðarinnar og mikilvægt er að þátttakendur séu að fullu tryggðir. Í ferðinni er farið í via ferrata klifur sem fellur ekki undir hefðbundnar slysatryggingar. Hægt er að fá slíkar tryggingar hjá innlendum tryggingafélögum sem og hjá sérhæfðum fyrirtækjum eins og Global Rescue. Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa forfalla- og ferðatryggingu. Fjallafélagið mælir með að þátttakendur kaupi sérstaka forfallatryggingu um leið og ferðin er bókuð. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tryggingin nái yfir kostnað við ferðina í heild sinni (ekki aðeins yfir fargjald og gistikostnað).

Bókun

Hægt er að bóka ferðina með því að smella á „Bóka ferð“ og greiða staðfestingargjald. Staðfestingargjald að upphæð kr. 35.000 er óendurkræft.

Skilmálar

Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér skilmála Fjallafélagsins sem hægt er að hálgast hér: https://fjallafelagid.is/skilmalar/

Fararstjórar

Fararstjórar eru þær Helga María Heiðarsdóttir og Belinda Eir Engilbertsdóttir en þær voru fararstjórar í þessari ferð í september 2022. Þær kynntust árið 2005 í Björgunarfélagi Akraness. Þær hafa ferðast og brasað mikið saman síðan þá bæði hérlendis og erlendis í alls konar útivist. Þær voru að öllum líkindum fyrstu íslensku konurnar til að fara í Via ferrata í Dólómítunum og hafa einnig  farið aðrar Via ferrata leiðir eins og t.d. á Triglav, hæsta fjall Slóveníu.

Helga María er þaulreyndur leiðsögumaður, útivistarkona og náttúruhlaupari, hún hefur leiðsagt ævintýraferðir á Íslandi og erlendis síðastliðin 14 ár. Helga María hefur ferðast víða og þekkir vel ferðamennsku á framandi slóðum.
Hún er menntaður náttúruland- og jöklafræðingur og er mjög fróð um náttúru og jarðfræði og hefur gaman af því að deila með öðrum. Hún er formaður Íslenskra Fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG) og setur metnað sinn í að tryggja öryggi og fagmennsku í leiðsögn.

Belinda er þaulreynd björgunarsveitakona með áhuga á öllu tengdu útivist. Hennar uppáhalds ferðir eru með allt á bakinu þar sem frelsið er alsráðandi. Hún hefur ferðast víða bæði hérlendis sem erlendis og vill helst alltaf vera á ferðinni, hún hefur ástríðu fyrir náttúruvernd og góðu kaffi. Hún er menntaður landslagsarkitekt og vinnur hjá Orkuveitu Reykjavíkur, þar er hún kjörin fulltrúi í öryggis og heilsunefnd fyrirtækisins og öryggið alltaf sett í fyrsta sæti fram yfir annað, má segja að öryggið sé innprentað í DNA-inu hennar.

TÍMALENGD

8 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá lýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

295.000 kr.

Availability: In stockProduct price
Additional options total:
Samtals:

DAGSKRÁ

Dagur 1, laugardagur 9. september

Flogið frá Íslandi og ekið í rútu til Cortina de Ampezzo á Ítalíu. Komum okkur fyrir á hóteli í miðbæ Cortina. Kvöldverður á eigin vegum.

Dagur 2, sunnudagur 10. september

Eftir góðan morgunverð skutlar rúta okkur að Cinque Torri en klifur dagsins er af léttari gerðinni og útsýnið er stórkostlegt. Við fáum frábært útsýni yfir klettana fimm sem mynda Cinque Torri (sem eru á heimsminjaskrá UNESCO) ásamt stóran hluta Dólómítana þegar við stöndum á toppi Averau fjalli. Staðurinn var einn af miðpunktum stríðsins í fyrri heimsstyrjöldinni en í dag eru klettarnir vinsæll viðkomustaður klettaklifrara og þar er einnig útisafn sem sýnir hvernig hermenn bjuggu. Kvöldverður á eigin vegum.

Dagur 3, mánudagur 11. september

Eftir morgunmat og um hálftíma keyrslu hefjum við göngu og Via ferreta klifur dagins um hina heimsfrægu Tre cime Lavaredo sem þýðist á íslensku sem tindarnir þrír af Lavaredo. Svæðið er einn vinsælasti viðkomustaður Dólómítana vegna fegurðar svæðins og þeirra klettamyndana sem tindarnir þrír samanstanda af. Gangan og Via ferretan verður um fallegan hrygg sem liggur austan við tindana þrjá og mun þessi dagur seint gleymast þar sem útsýnið og klifrið er af hæsta gæðaflokki! Sameiginlegur kvöldverður í Cortina (innifalinn).

Dagur 4, þriðjudagur 12. september

Margir þekkja skíðasvæðið Selva enda hafa Íslendingar flykkst þangað í skíðaferðir síðustu ár, en hve margir Íslendingar hafa klifrað í Val Gardena? Líklega mjög fáir! Í dag klifrum við eina frægustu og vinsælustu Via ferrata leið Dólómítana og litlar líkur á því að okkur leiðist! Ekið til baka – sameiginlegur kvöldverður í Cortina (innifalinn).

Dagur 5, miðvikudagur 13. september

Í dag er frjáls dagur og ferðalöngum í sjálfsvald sett hvað þeir nýta daginn í. Í boði verður stutt ganga með leiðsögumönnum fyrir hádegi fyrir þá sem það kjósa. Við getum ráðlagt göngu og/eða hjólaleiðir og aðstoðað við leigu á hjólum. Gott að nýta daginn í hvíld enda hörku dagur á morgun. Kvöldverður á eigin vegum.

Dagur 6, fimmtudagur 14. september

Í dag ætlum við að klifra fallega Via ferrata sem liggur upp klettavegg sem við höfum horft á frá hótelinu okkar. Falleg leið með skemmtilegu klifri og stórkostlegtu útsýni yfir Cortina. Niðurleiðin er ekki minna spennandi en við munum ganga niður bratta hvíta skriðu. Frábær göngu- og klifurdagur með góðri hækkun og lækkun með útsýni sem skilur engan eftir ósnortinn. Ekið til baka – sameiginlegur kvöldverður í Cortina (innifalinn).

Dagur 7, föstudagur 15. september

Síðasti dagurinn í Dólómítunum runninn upp. Við skoðum sögufrægar herminjar frá fyrri heimsstyrjöldinni ásamt því að klifra stutta Via ferrata er kallast Col de Bos, skemmtileg og vel tryggð leið upp fallegan klettavegg. Eftir gönguna ökum við til baka til Cortina. Eftir síðbúinn hádegisverð hefst heimferðin þar sem við ökum í rútu á hótel í Feneyjum sem Fjallafélagið hefur mælt með. Kvöldverður á eigin vegum í Feneyjum. 

Dagur 8, laugardagur, 16. september

Eftir morgunverð er haldið út á flugvöllinn í Feneyjum og flogið heim til Íslands.