Inkastígurinn til Machu Picchu í Perú 20.9.2025

20.9.2025

Machu Picchu er eitt af sjö undrum veraldar
Machu Picchu er eitt af sjö undrum veraldar

Inkastígurinn til Machu Picchu er ein stórbrotnasta gönguleið heims og liggur um merkar fornminjar frá stórveldi Inkanna. Týnda borgin Machu Picchu er eitt af verkfræðilegu undrum hins forna heims og var mönnum ráðgáta þegar hún fannst árið 1911. Fram að því hafði hún verið falin um margar aldir í frumskóginum. Gangan sjálf tekur fjóra daga og endar með því að við göngum í gegnum sólarhliðið og lítum Machu Picchu augum. Þetta er upplifun sem enginn gleymir. Við höfum skipulagt sérstakan dag eftir gönguna sem helgaður er skoðunarferð um rústirnar og ferð til Cusco með lest. Við fáum því góðan tíma til að upplifa undur Machu Picchu. Við viljum benda ykkur á þann möguleika að ganga á Huayna Picchu fjallið, það er fallega fjallið á öllum myndum af Machu Picchu borginni. Gangan tekur um 2 tíma og er nokkuð brött. Útsýnið er einstakt og mikil upplifun að standa á toppnum. Það er takmarkaður fjöldi leyfa í boði til að ganga á fjallið og þegar þau eru uppseld er ekkert hægt að bóka eða setja sig á biðlista. Gangan er daginn sem við skoðum Machu Picchu og seinnipart þann sama dag höldum við aftur til Cusco. Leyfið kostar kr. 14.000. Athugið að við þurfum að kaupa leyfið og ekki er hægt að fá það endurgreitt

Perú hefur að geyma gríðarlegar andstæður og fáum við að kynnast þeim. Við heimsækjum Regnbogafjallið, skoðum Líma höfuðborg Perú, förum í bátsferð um Ballestas eyja sem kallaðar hafa verið “litla Galapagos” og rennum okkur niður sandöldur í eyðimerkur vin er nefnist Huacachina.

Fararstjóri:

Kolbrún Björnsdóttir

Fjöldi þátttakenda:

Lágmark 8 og hámark 16

Undirbúningur:

Þessi ferð er krefjandi þótt gangan sjálf sé ekki tæknilega erfið. Því er mikilvægt að þátttakendur undirbúi sig vel og æfi reglulega fram að brottför.

Búnaður:

Búnaðarlisti verður sendur til hópsins. Farangur verður fluttur milli gististaða af burðarmönnum en við berum léttan bakpoka með því sem þarf til dagsins.

Tryggingar:

Athugið að engar tryggingar eru innifaldar í verði ferðarinnar og mikilvægt er að þátttakendur séu að fullu tryggðir. Á Inkastígnum er farið hæst í 4.215m hæð og á Regnbogafjalli er farið yfir 5.000m þannig að almennar

Huacachina er vin í eyðimörkinni

ferðatryggingar duga ekki. Tryggingin þarf m.a. að ná yfir kostnað við leit og björgun upp í 5.000 metra. Hægt er að fá slíkar tryggingar hjá innlendum tryggingafélögum sem og hjá sérhæfðum erlendum fyrirtækjum. Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa forfalla- og ferðatryggingu. Fjallafélagið mælir með að þátttakendur kaupi sérstaka forfallatryggingu um leið og ferðin er bókuð. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tryggingin nái yfir kostnað við ferðina í heild sinni (ekki aðeins yfir fargjald og gistikostnað).

Innifalið:
  • Akstur til og frá flugvelli í Cusco
  • Hótel 4* í Cusco í fjórar nætur m/morgunverði
  • Hótel 4* í Ollantaytambo í eina nótt m/morgunverði
  • Hótel 3-4* í Aguas Calientes í eina nótt m/morgunverði
  • Hótel 4* í Lima í eina nótt m/morgunverði
  • Hótel 4* í Huacachina í tvær nætur m/morgunverði
  • Gisting í 3 nætur í tveggja manna tjöldum
  • Skoðunarferð um Cusco og nágrenni
  • Skoðunarferð um Lima
  • Dagsferð í Sacred valley (Helgan dal Inkanna)
  • Allur matur í gönguferðinni um Inkastíginn (3 máltíðir á dag)
  • Matartjöld, borð og stólar. Eldhústjald og salernistjald
  • Enskumælandi innlendir leiðsögumenn
  • Matreiðslumaður og eldunartæki
  • Burðarmenn
  • Aðgangseyrir í Machu Picchu
  • Lestar-og rútuferð frá Machu Picchu til Cusco
  • Skoðunarferð um Ballestas eyjar
  • Torfærubílar og sandbretti í Huacachina
  • Akstur til og frá flugvelli í Lima
  • Íslenskur leiðsögumaður
Ekki innifalið:
  • Flug
  • Drykkir
  • Matur sem ekki er í ferðalýsingu hér að ofan
  • Þjórfé til innlendra leiðsögu- og burðarmanna

Regnbogafjallið þar sem farið er yfir 5.000 metra hæð

Bókun:

Hægt að bóka ferðina hér á síðunni með því að smella á “Bóka ferð”. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fjallafelagid@fjallafelagid.is. Bókun er ávallt með fyrirvara um framboð af leyfum á Inkastígnum. Samhliða skráningu þarf að senda ljósmynd af vegabréfi á netfangið bjarnthora@fjallafelagid.is. Leyfin fyrir Inkastígnum eru gefin út um miðjan október, því er ekki ráðlagt að panta/bóka flug fyrr en komin er staðfesting á leyfunum.

Einstaklingsherbergi:

Aukagjald fyrir einstaklings herbergi/tjald: ISK 59.000.

Skilmálar:

Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér skilmála Fjallafélagsins sem hægt er að hálgast hér: https://fjallafelagid.is/skilmalar/

*Takmarkaður fjöldi leyfa er gefinn út fyrir hvern dag fyrir Inkastíginn og mikil eftirspurn er eftir þeim. Því er mikilvægt að bóka ferðina með góðum fyrirvara. Leyfin eru gefin út á nafn og fæst gjaldið ekki endurgreitt og ekki er hægt að nafnabreyta. Fjallafélagið mun hins vegar ekki kaupa leyfin fyrir hópinn fyrr en lágmarks þátttöku er náð. Leyfum fyrir gönguna er úthlutað í október ár hvert.

*Náist ekki lágmarks þátttaka verður ferðin felld niður og fæst þá full endurgreiðsla (þmt. staðfestingargjald). Þrátt fyrir að lágmarks þátttöku sé náð er bókun ávallt með fyrirvara um framboð á leyfum. Ferðin kann því að falla niður þrátt fyrir að lágmarks þátttöku sé náð sökum skorts á leyfum.

*Mikilvægt er að Fjallafélaginu séu veittar réttar upplýsingar, eins og þær koma fram í vegabréfi þátttakenda, um fullt nafn, vegabréfsnúmer, fæðingardag og þjóðerni. Ef upplýsingar í vegabréfi eru ekki í samræmi við leyfi fær viðkomandi þátttakandi ekki að fara á Inkastígnum. Hafa þarf vegabréfið meðferðis alla ferðina. Athugið að vegabréf þurfa að gilda í 6 mánuði eftir lok ferðar.

TÍMALENGD

13 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá lýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

kr. 495.000

Out of stock

Uppselt er í ferðina / hópinn. Þú getur skráð þig á biðlista og við látum þig vita um leið og hægt er að skrá sig að nýju.

DAGSKRÁ

Dagur 1, laugardagur 20. september. Komið til Cusco 

Ferðin hefst við komuna til Cusco og er miðað við að þátttakendur séu komnir um miðjan dag til borgarinnar.

Við höldum á hótelið okkar sem við gistum á næstu tvær nætur og hvílum okkur eftir langt ferðalag.

Cusco sem nefnd er höfuðborg Inkanna, var miðpunktur í stórveldi þeirra. Við erum komin í 3.400m hæð og er þetta því kjörinn staður til að aðlagast þunnu lofti fyrir gönguna. Eftir innritun á hótelið er frjáls tími sem kjörið er að nýta til að skoða fornar götur miðborgarinnar og framandi mannlíf. Annars mælum við með að taka því rólega og drekka mikið af vatni til að gefa líkamanum tækifæri til að aðlagast þunnu lofti í svo mikilli hæð.

Um kvöldið verður fundur með þátttakendum þar sem farið verður yfir dagskrá næstu daga.

Innifalið: Rúta frá flugvelli í Cusco að hóteli  m.v. uppgefið flug fyrir hópinn. Gisting á 4* hóteli í Cusco í tveggja manna herbergjum.

Ekki innifalið: Hádegis- og kvöldverður. 

Dagur 2, sunnudagur 21. september. Skoðunarferð um Cusco 

Við höldum í skoðunarferð um borgina og fræðumst um sögu hennar og skoðum merkar minjar. Byrjum á að heimsækja áhugaverða staði í miðborginni, Plaza de Armas torgið, kirkjuna, götur með meistaralegri hönnun og steinhleðslum Inkanna svo sem Loreto og sólhofið Koricancha. Höldum síðan að virkinu Sacsayhuaman’s sem er ein af merkustu byggingum Inkanna og hefur geyma gríðarstóra steina sem þurfti að flytja 18 km. Næst höldum við til hofsins Quenqo, Tambomachay rústanna og virkisins Puca Pucara sem eru rétt utan við Cusco. Að skoðunarferð lokinni höldum við aftur á hótelið. 

Innifalið: Gisting á hóteli í Cusco í tveggja manna herbergjum. Skoðunarferð um Cusco þ.m.t. aðgangseyrir að þeim minjum sem við heimsækjum, akstur, leiðsögn, morgunverður á hóteli. 

Ekki innifalið: Hádegis- og kvöldverður. 

Dagur 3, mánudagur 22.  september. Skoðunarferð um helgan dal Inkanna. Ollantaytambo 

Við förum af hótelinu okkar í Cusco og dag höldum til hins helga dals Inkanna (Sacred Valley) og skoðum hinar ótrúlegu fornminjar í Pisac. Þar eru heillegustu minjar um veldi Inkanna með merkum stöllum þar sem landbúnaður var stundaður. Einnig eru þar grafhýsi, hallir og aðrar stórar byggingar. Síðan höldum við til Ollantaytambo sem er einstaklega fallegur bær þar sem við skoðum fleiri merkar minjar. 

Innifalið: Gisting á hóteli í Ollantaytambo í tveggja manna herbergjum. Skoðunarferð um helgan dal Inkanna þ.m.t. aðgangseyrir að þeim minjum sem við heimsækjum, akstur, leiðsögn og allar máltíðir.

Dagur 4, þriðjudagur 23.  september. Gangan hefst – Wayllabamba 

Í dag hefst gangan eftir sjálfum Inkastígnum til Machu Picchu en hann var byggður af Inkum á 15. öld um leið og borgin sjálf. Við ökum í um 45 mínútur til Piscacucho (einnig þekkt sem Km82) þar sem gangan hefst. Hér hittum við innlenda leiðsögumenn og burðarmenn sem fylgja okkur í göngunni. Við göngum meðfram Urubamba ánni og fyrir ofan sjáum við snæviþakta tinda Andes fjalla. Í lok dags komum við í fyrsta tjaldstað sem nefnist Wayllabamba. 

Gönguvegalengd er um 11 km og tekur gangan í heild um 6‐7 tíma

Innifalið: Akstur að upphafsstað göngu, gisting í tveggja manna tjöldum, allar máltíðir.

Dagur 5, miðvikudagur 24.  september. Gengið yfir Dead Woman’s Pass í 4.215m hæð 

Þetta er lengsti og erfiðasti dagur göngunnar. Við göngum upp langa brekku í gegnum regnskóg að sléttunni Llulluchapampa. Síðan förum við í mestu hæð á allri göngunni þegar við förum í gegnum skarðið Warmihuañusca sem einnig er nefnt Dead Woman’s Pass í 4.215m hæð. Höldum þaðan niður í fallegan dal við Pacamayo ánna og tjöldum þar í 3.600 metra hæð. 

Gönguvegalengd er um 10km og tekur gangan í heildina um 6‐7 tíma.

Innifalið: Gisting í tveggja manna tjöldum, allar máltíðir 

Dagur 6, fimmtudagur 25.  september. Gengið yfir Runqu Raccay skarðið í 3.930m 

Dagurinn byrjar á hækkun að rústunum Runquracay og áfram yfir Runquracay skarðið í 3.930m hæð. Við förum framhjá Sayacmarca rústunum og tekur þá við skógur og síðan göng sem gerð voru af Inkunum. Í lok dags tjöldum við á fallegum hrygg fyrir ofan Phuyupatamarca rústirnar 3.680m og njótum sólsetursins og einstakrar náttúrufegurðar Andesfjalla.

Gönguvegalengd er um 12km og tekur gangan í heildina um 5-6 tíma.

Innifalið: Gisting í tveggja manna tjöldum, allar máltíðir 

Dagur 7, föstudagur 26.  september. Phuyupatamarca – Machu Picchu – Aguas Calientes 

Nú taka við Inka þrepin frægu sem er tveggja kílómetra stigi sem leiðir okkur niður á við til móts við óviðjafnanlegt útsýni til hárra fjalla og djúpra dala. Eftir að við höfum skoðað rústir Winay Wayna höldum við áfram göngu og komum að Intipunku. Þar njótum við fullrar sýnar yfir Machu Picchu. Komum síðdegis til Aguas Calientes 

Gönguvegalengd er um 9 km og tekur gangan í heildina um 6‐7 tíma.

Innifalið: Gisting á 3-4* hóteli í tveggja manna herbergjum, allar máltíðir 

Dagur 8, laugardagur 27.  september. Machu Picchu – Cusco 

Leggjum snemma af stað frá hótelinu og förum með rútu ca. 30 mín. akstur að hinni fornu borg Machu Picchu. Við skoðum þessar einstöku fornminjar og drekkum í okkur söguna. Að skoðunarferð lokinni förum við aftur í rútu til Aguas Calientes og síðan járnbrautarlest til Ollantaytambo, þaðan með rútu til Cusco. Valkvætt: Hægt er að ganga á Huayna Picchu fjallið sem er í Machu Picchu borginni, það þarf að bóka og kaupa leyfi fyrir þá göngu.

Innifalið: Skoðunarferð um Machu Picchu, leiðsögn, aðgangseyrir, akstur, lestarferð, gisting á 4* hóteli í Cusco í tveggja manna herbergjum, morgunverður á hóteli. 

Ekki innifalið: Hádegis- og kvöldverður. 

Dagur 9, sunnudagur 28.  september. maí. Regnbogafjall

Við vöknum snemma og förum í skoðunarferð að hinu fræga Regnbogafjalli, Rainbow mountain. Fjallið dregur nafn sitt af einstakri litafegurð og hafa myndir af því farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Við göngum upp að fjallinu og hægt er að virða það fyrir sér frá ólíkum útsýnisstöðum. Við eigum kost á að komast yfir 5.000m hæð sem er mikil reynsla og hugsanlega eru einhverjir að slá persónulegt hæðarmet. Eftir gönguna tekur við rútuferð aftur til Cusco þar sem við gistum á hóteli.

Innifalið: Skoðunarferð að Regnbogafjalli, leiðsögn, aðgangseyrir, akstur, gisting á 4* hóteli í Cusco í tveggja manna herbergjum, morgunverður á hóteli og hádegisverður í skoðunarferð. 

Ekki innifalið: Kvöldverður. 

Dagur 10, mánudagur 29.  september. Skoðunarferð um Líma

Við kveðjum Cusco og fljúgum til Líma, höfuðborgar Perú. Eftir hádegi förum við í skoðunarferð um borgina og fræðumst um sögu hennar og merkar byggingar.

Innifalið: Morgunverður á hóteli, akstur á flugvöll, gisting á 4* hóteli í Lima í tveggja manna herbergjum, skoðunarferð um miðborg Lima.

Ekki innifalið: Flug, hádegisverður og kvöldverður.

Dagur 11, þriðjudagur 30.  septemberg. Bátsferð um Ballestas eyjar, torfærubílar og sandbretti í eyðimörk Huacachina

Brottför er snemma frá hóteli í Líma. Við förum í rútu til smábæjarins Paracas þar sem við förum í bátsferð með kyrrahafsströndinni og skoðum friðað dýralíf við Ballestas eyjar sem hefur verið líkt við litla Galapagos. Þar sjáum við gríðarlegan fjölda sæljóna, fugla og fleiri dýr. Höldum síðan til Huacachina sem er vin umlukin af eyðimörk. Þar förum við í æsilega ferð um eyðimörkina í “böggý-bílum” og fáum tækifæri til að renna okkur niður sandöldur á bretti. Gistum svo í hinni einstöku eyðimerkurvin Huacachina.

Innifalið: Rúta, leiðsögn aðgangseyrir, bátsferð, torfærubílar, sandbretti, gisting á 4* hóteli í Huacachina í tveggja manna herbergjum, morgunverður á hóteli og hádegisverður í skoðunarferð. 

Ekki innifalið: Kvöldverður. 

Dagur 12, miðvikudagur 1.  október .

Frjáls tími til að njóta slaka á við sundlaugina og rifja upp öll ævintýrin í ferðinni. Valkvæð heimsókn á vínbúgarð Suður-Ameríku.

Innifalið: 4* hóteli í Huacachina í tveggja manna herbergjum og morgunverður á hóteli. 

Ekki innifalið: Hádegisverður og kvöldverður.

Dagur 13, fimmtudagur 2.  október.

Frjáls tími til klukkan 15 en þá höldum við aftur til Líma og verður hópnum ekið út á flugvöll. Höldum með flugi heim til Íslands.

Innifalið: Morgunverður á hóteli, akstur á flugvöll. 

Ekki innifalið: Flug, hádegisverður og kvöldverður.