Grunnnámskeið - Utanbrautar gönguskíði 8.1.2023

8.1.2023

Grunnnámskeið – Utanbrautar gönguskíði

Það er fátt skemmtilegra en að ganga á gönguskíðum og á þessu námskeiði kennum við hvernig við getum farið út fyrir brautina og gengið frjáls um ótroðnar slóðir. Markmiðið með námskeiðinu er að þátttakendur öðlist góðan grunn í að ferðast á skíðum og hafi þekkingu til að fara í dagsferðir á utanbrautar gönguskíðum á eigin vegum eða með Skíðabandalaginu. Námskeiðið hentar jafnt fyrir byrjendur og þá sem eru með ákveðinn grunn á skíðum.

Á námskeiðinu verður fræðsla um búnað svo sem skíði, skó, stafi, skinn og klæðnað. Þá verður kennsla í gönguskíðatækni, m.a. göngu á jafnsléttu, göngu upp brekkur og skíðun niður brekkur. Þá verður fræðsla um rötun, veðurspár, fjarskipti og næringu. Námskeiðið samanstendur af tveimur dögum á skíðum og einum fyrirlestri. Fyrri daginn verður fræðsla og skíðaæfingar en seinni daginn verður farið í 2 tíma skíðagöngu með kennslu og æfingum í grunnatriðum vetrarferðamennsku. Á fyrirlestrinum verður farið yfir helstu öryggismál og fróðleik um búnað.

Utanbrautar gönguskíði eru einnig nefnd ferðaskíði. Þetta eru nokkuð breið gönguskíði með stálköntum.  Utanbrautar gönguskíði skiptast í riffluð skíði og vax-skíði. Í sumum tilvikum eru festingar fyrir stutt skinn (einnig nefnd hálf-skinn) sem nota má þegar farið er upp brekkur. Við mælum með skíðum með grófum rifflum (fish scale/waxless) þar sem þau eru auðveld í notkun og henta vel íslenskum aðstæðum.

Staðsetning námskeiðsins verður ákveðin út frá veðri og snjóalögum og tilkynnt í tölvupósti. Þátttakendur sjá sjálfir um að koma sér á staðinn en miðað er við að akstur sé innan við klukkustund frá höfuðborgarsvæðinu. Dæmi um staðsetningu er Mosfellsheiði, Hengilssvæði, Þrengsli, Bláfjöll, Kaldidalur og Lyngdalsheiði.

Hámarksfjöldi er 20.

Kennarar á námskeiðinu eru Guðrún Ragna Hreinsdóttir, Örvar Þór Ólafsson og Haraldur Örn Ólafsson.

Dagsetningar námskeiðsins kunna að breytast vegna veðurs eða snjóalaga. Í slíkum tilvikum verður fundin ný dagsetning og námskeiðið haldið þegar aðstæður leyfa.

TÍMALENGD

3 dagar

TEGUND FERÐAR

Námskeið

INNIFALIÐ

Kennsla

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

19.500 kr.

Availability: In stock

Product price
Additional options total:
Samtals:

DAGSKRÁ

Fimmtudagur 5. janúar 2023 kl. 17

Fyrirlestur um búnað, rötun, veðurspár, fjarskipti, næringu og öryggismál. Verður haldinn í Fjallakofanum, Hallarmúla 2. Þátttakendur mæta með búnaðinn sinn og við förum yfir hann.

Sunnudagur 8. janúar 2023 kl. 10-12

Fjallað verður um ferðaskíðabúnað, m.a. skíði, skó, stafi, skinn, klæðnað o.fl. Kennsla í gönguskíðatækni, m.a. göngu á jafnsléttu, göngu upp brekkur og skíðun niður brekkur.

Sunnudagur 22. janúar 2023 kl. 10-12

Framhald á tækniæfingum. Framhald á fræðslu um búnað, rötun, veður, fjarskipti, næringu og öryggismál. Farið verður í 2 tíma skíðagöngu með kennslu og æfingum í grunnatriðum vetrarferðamennsku.