Gokyo og Grunnbúðir Everest 2025

26.10.2025

Þetta er ógleymanlegur leiðangur inn í stærsta fjallasal heims. Þessi ferð er fyrir þá sem vilja allt það besta sem Himalayafjöllin hafa uppá að bjóða Gokyo-dalinn, Grunnbúðir Everest og þyrluferð. Allur aðbúnaður og skipulagning er fyrsta flokks.

Hápunktar í þessari ferð

  • Ganga upp Gokyo dalinn með einstakri náttúrufegurð
  • Fáfarnari leið í Grunnbúðir Everest
  • Möguleiki á að bæta við Island Peak (6.165m)
  • Þyrluferð yfir Khumbu dalinn
  • Íslensk fararstjórn og mikil reynsla af svæðinu

Kathmandu
Boudhanath Stupa í Kathmandu

Ferðin byrjar í Kathmandu, höfuðborg Nepals, þar sem hópurinn gistir á fimm stjörnu hóteli. Við fáum tækifæri til að skoða okkur um, en sú upplifun er mjög ólík þeirri sem við kynnumst í þorpum Himalayafjallanna.

Leiðin að grunnbúðum Everest er ein magnaðasta og þekktasta gönguleið í heimi og ekki að ástæðulausu. Tilkomumikið landslag og magnaðir fjallstindar gera hvern dag að ævintýri. Á ferð okkar um Khumbudalinn kynnumst við menningu Sherpa fólksins sem þar býr. Áhrif Búddatrúarinnar eru mikil og sjást meðal annars í búddahofum, litríkum bænaflöggum og bænahjólum. Á göngunni gistum við í góðum tehúsum í tveggja manna herbergjum.

Við göngum fáfarnari leið upp hinn einstaka Gokyo dal. Þar göngum við að fallegum vötnum og á tindinn Gokyo Ri sem er í 5.375 m. hár og talinn einn besti útsýnisstaður heims. Við förum síðan yfir Cho La skarðið og í Grunnbúðir Everest. Loks tökum við þyrlu frá þorpinu Dingboche til Lukla og fáum óviðjafnanlegt útsýni yfir Khumbu dalinn.

Hægt er bæta við göngu upp á tind Island peak (6.165m). Smellið hér til að sjá viðbótina.

Fararstjórar:

Haraldur Örn Ólafsson
Haraldur Örn Ólafsson

Haraldur Örn Ólafsson er stofnandi Fjallafélagsins og hefur langa reynslu af fjallaferðum. Hann kleif tind Everest árið 2002

Dendi Sherpa
Dendi Sherpa

Dendi Sherpa er mikill vinur okkar í Fjallafélaginu og hefur leitt okkur um nepölsku fjöllin í mörg ár.

Fjöldi þátttakenda:

Lágmark 10 og hámark 14

Gisting

Tea house in the Khumbu Valley
Tehús í Khumbu dalnum

Gist er á fimm stjörnu hóteli í Kathmandu í tveggja manna herbergjum. Á göngunni er gist í góðum tehúsum í tveggja manna herbergjum og bjóðum við uppá herbergi með baðherbergi þar sem kostur er.

Undirbúningur:

Þessi ferð er krefjandi þótt gangan sjálf sé ekki tæknilega erfið. Því er mikilvægt að þátttakendur undirbúi sig vel og æfi reglulega fram að brottför.

Búnaður:

Farangur verður fluttur milli gististaða af burðarmönnum eða jakuxum en þátttakendur bera léttan bakpoka með því sem þarf til dagsins.

Tryggingar:

Athugið að engar tryggingar eru innifaldar í verði ferðarinnar og mikilvægt er að þátttakendur séu að fullu tryggðir. Í ferðinni er farið í 5.420 metra hæð þannig að almennar ferðatryggingar duga ekki. Tryggingin þarf m.a. að ná yfir kostnað við leit og björgun upp í 6.000 metra. Hægt er að fá slíkar tryggingar hjá innlendum tryggingafélögum sem og hjá sérhæfðum fyrirtækjum eins og Global Rescue. Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa forfalla- og ferðatryggingu. Fjallafélagið mælir með að þátttakendur kaupi sérstaka forfallatryggingu um leið og ferðin er bókuð. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tryggingin nái yfir kostnað við ferðina í heild sinni (ekki aðeins yfir fargjald og gistikostnað).

Innifalið:
  • Íslensk fararstjórn
  • Öll gisting í Kathmandu og á göngu
  • Akstur til og frá flugvelli í Kathmandu
  • Skoðunarferð um Kathmandu
  • Flug til og frá Lukla
  • Þyrluflug frá Dingboche til Lukla
  • Innlendir leiðsögumenn og burðarmenn
  • Allur matur nema hádegis- og kvöldverðir í Kathmandu
  • Þjóðgarðsgjöld fyrir Everest þjóðgarðinn
Í verðinu er ekki innifalið:
  • Flug til og frá Kathmandu
  • Vegabréfsáritun
  • Persónulegur búnaður
  • Hádegis- og kvöldverðir í Kathmandu
  • Ferða-, slysa- og farangurstrygging
  • Þjórfé fyrir nepalska leiðsögumenn og burðarmenn
  • Önnur þjónusta og afþreying sem ekki er tekin fram í leiðarlýsingu

Bókun:

Hægt er að bóka ferðina með því að smella á „Bóka ferð“ og greiða staðfestingargjald. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fjallafelagid@fjallafelagid.is. Staðfestingargjald er kr. 45.000.

Skilmálar:

Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér skilmála Fjallafélagsins sem hægt er að hálgast hér: https://fjallafelagid.is/skilmalar/

TÍMALENGD

17 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá lýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

579.000 kr.

Availability: Out of stock

Uppselt er í ferðina / hópinn. Þú getur skráð þig á biðlista og við látum þig vita um leið og hægt er að skrá sig að nýju.

DAGSKRÁ

Dagur 1, sunnudagur 26. október. Kathmandu

Ferðin byrjar við komuna til Kathmandu en fljúga þarf frá Íslandi daginn áður. Kathmandu höfuðborg Nepal er staðsett í samnefndum dal. Í borginni sjálfri búa rúmlega 800 þúsund manns en hún er mjög þéttbýl. Fjölbreyttni einkennir borgina en þar býr fólk af ólíkum uppruna og með ólík trúarbrögð í sátt og samlyndi. Gist er á góðu  fimm stjörnu hóteli.
Innifalið: Rúta frá flugvelli, gisting á 5* hóteli í tveggja manna herbergjum.

Litríkar götur Thamel í Kathmandu

Dagur 2, mánudagur 27. október. Kathmandu

Skoðunarferð um Kathmandu. Skoðuð verða helstu kennileiti eins og Durbar Square, Pashupatinath Temple og Boudhanath Stupa.
Innifalið: Skoðunarferð, morgunmatur, gisting á hóteli í tveggja manna herbergjum.

Dagur 3, þriðjudagur 28. október. Kathmandu – Lukla – Phakding (2610m)

Snemma að morgni fljúgum við til Lukla (2800 m). Þetta er stutt og ævintýralegt flug sem markar upphafið að göngunni okkar, en Lukla er oft kallað “hliðið að Everest”. Í Lukla hittum leiðsögumennina okkar og fáum okkur te á meðan verið er að koma farangri okkar fyrir á jakuxum. Svo hefjum við gönguna en það er ca 3 tíma ganga til þorpsins Phakding þar sem við gistum í tehúsi í tveggja manna herbergjum.
Göngutími 3-4 klst. Vegalengd 8 km. Lækkun 200m.
Innifalið: Rútuferð, flug, gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 4, miðvikudagur 29. október. Phakding – Namche Bazaar (3440m)

Þetta er fyrsti alvöru göngudagurinn og það mun taka okkur um 6 tíma að ganga upp í Namche Bazaar. Namche Bazaar er  höfuðstaður sherpanna og stærsta þorpið á leiðinni. Það er byggt inn fjallshlíð og þar er virkilega skemmtilegt andrúmsloft. Gist verður tvær nætur í tehúsi í Namche til að aðlagast þunna loftinu.
Göngutími 6-7 klst. Vegalengd 11 km. Hækkun 800m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 5, fimmtudagur 30. október. Namche Bazaar aðlögunarganga (3440m)

Til að aðlagast sem best hæðinni förum í aðlögunargöngu upp í Everest view hótelið (3.800m) en þaðan er magnað útsýni til Everest, Ama Dablam og annarra fjalla. Restina af deginum er hægt að nýta til að skoða sig um í Namche.
Göngutími 3 klst. Vegalengd 4 km. Hækkun 400m. Lækkun 400m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 6, föstudagur 31. október. Namche Bazaar – Dole (4100m)

Við höldum upp frá Namche, njótum útsýnis á Ama Dablam sem er eitt fegursta fjall heims og annarra tinda svo sem fjallsins Thamersku. Við förum svo út af aðal gönguleiðinni og stefnum upp Gokyo dalinn með fjallshlíðinni um Mong La skarð. Við göngum framhjá gömlu klaustri og niður að þorpinu Phortse Tenga. Þaðan höldum við svo aftur upp á við til Dole þar sem við gistum í tehúsi í tveggja manna herbergjum.
Göngutími 7 klst. Vegalengd 11 km. Hækkun 700m. Lækkun 420m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 7, laugardagur 1. nóvember. Dole – Machherma (4470m)

Við höldum við upp til þorpsins Maccherma og förum okkur rólega í brekkunum. Göngum gegnum lítil þorp í fjallshlíðinni, Lhabarma og Luza, langt fyrir ofan Dudh kosh ánna. Sífellt verður minna af gróðri og það eru helst einiberjarunnar sem þrífast á þessum stað. Það var einmitt hér árið 1974 sem snjómaðurinn ógurlegi eða “yeti” er talinn hafa ráðist á sherpa og drepið þrjá jakuxa! Svo við förum öllu með gát :)
Göngutími 4 klst. Vegalengd 6 km. Hækkun 450m. Lækkun 100m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 8, sunnudagur 2. nóvember. Machherma – Gokyo (4750m)

Nú opnast Gokyo dalurinn; Ngozamba jökulinn og fallegu grænbláu Gokyo vötnin birtast okkur. Fyrsta Gokyo vatnið heitir Longpongo og er það tengt því næsta, Taboche Tsho. Þriðja er svo Dudh Pokari vatnið og á bökkum þess stendur fallega Gokyo þorpið. Hér gistum við í tvær nætur í tehúsi í tveggja manna herbergjum.
Göngutími 4 klst. Vegalengd 6 km. Hækkun 340m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 9, mánudagur 3. nóvember. Gokyo Ri (5375m)

Gokyo vötnin frá Gokyo Ri

Við höldum snemma morguns á tindinn Gokyo Ri sem er í 5375 m. hár og talinn einn besti útsýnisstaður heims. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Gokyo dalinn og til hæstu fjalla heims Everest (8848m), Lhotse (8516m), Makalu (8485m) og Cho Oyu (8188m). Svo er haldið aftur niður í Gokyo þorpið þar sem við gistum aðra nótt.
Göngutími 6 klst. Vegalengd 5 km. Hækkun 600m. Lækkun 600m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 10, þriðjudagur 4. nóvember. Gokyo – Dragnag (4900 m)

Gengið er yfir Ngozumpa jökul og upp í lítinn hliðardal og þar sem við endum í smáþorpinu Dragnag. Hér hvílumst við og undirbúum okkur fyrir gönguna yfir Cho La skarðið. Gisting í tehúsi í tveggja manna herbergjum.
Göngutími 4 klst. Vegalengd 5 km. Hækkun 200m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 11, miðvikudagur 5. nóvember. Cho La skarð (5420 m)

Við klífum upp krefjandi brekku upp í Cho La skarðið í 5.420m. hæð. Við förum yfir bæði skriður og snjó á þessum hluta og er skarðið stærsta áskorunin í ferðinni. Við höldum síðan niður yfir lítinn jökul undir hlíðum Cholatse fjalls. Við gistum síðan í Dzonghla Kharka í 4.730m hæð.
Göngutími 8-9 klst. Vegalengd 11 km. Hækkun 850m. Lækkun 700m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 12, fimmtudagur 6. nóvember. Lobuche (4930m)

Við sameinumst nú aftur aðal leiðinni upp í grunnbúðir Everest og göngum að Khumbu-jökulinum. Við sjáum minnisvarða um fjallgöngumenn sem farist hafa í hlíðum Everest. Við höldum svo áfram til Lobuche í 4930m. hæð.
Göngutími 3 klst. Vegalengd 7 km. Hækkun 400m. Lækkun 300m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 13, föstudagur 7. nóvember. Grunnbúðir Everest (5364)

Fagnað í Grunnbúðum Everest

Við tökum daginn snemma og göngum frá Lobuche upp með Khumbu skriðjöklinum á móts við Everest og aðra fjallarisa svo sem Pumori og Lhotse. Við fáum okkur að borða í Gorak Shep og höldum svo áfram upp í sjálfar Grunnbúðir Everest í 5.364m hæð. Eftir að hafa fagnað áfanganum og tekið margar myndir höldum við til baka aftur niður í Lobouche og gistum þar um nóttina í 4.930m hæð.
Göngutími 10 klst. Vegalengd 19 km. Hækkun 600m. Lækkun 600m.
Innifalið: Gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 14, laugardagur 8. nóvember. Þyrluferð til Lukla (2800m.)

Flogið verður með þyrlu til Lukla

Eftir morgunmat göngum við niður til Dingboche sem tekur um 3 klst. og fáum okkur þar hressingu. Síðan sækir þyrla hópinn og við tekur einstakt flug niður Khumbu dalinn til Lukla og við njótum einstaks útsýnis yfir fjöllin sem við höfum gengið um. Gist á tehúsi í Lukla í tveggja manna herbergjum.
Göngutími 3 klst. Vegalengd 8 km. Hækkun 300m. Lækkun 900m.
Innifalið: Þyrluferð, gisting, morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur.

Dagur 15, sunnudagur 9. nóvember. Flug til Kathmandu

Flug frá Lukla til Kathmandu. Frjáls tími. Gist á fimm stjörnu hóteli.
Innifalið: Flug, rúta frá flugvelli, gisting, morgunmatur.

Dagur 16, mánudagur  10. nóvember

Frjáls tími í Kathmandu. Tilvalið er að versla framandi vörur í Thamel sem er verlunarhverfi í miðborginni og einnig að fara í skoðunarferðir.
Innifalið: Gisting og morgunmatur.

Dagur 17, þriðjudagur 11. nóvember. Heimferð

Við kveðjum Nepal og höldum heim á leið með flugi frá Kathmandu.
Innifalið: Morgunmatur og rútuferð út á flugvöll.