FjallafÚlagi­ Skrßning ß pˇstlista
Vi­ erum ß facebook!
ForsÝ­a Fer­ir Myndir Lei­alřsingar Haraldur Írn FjallafÚlagi­
Fyrri lei­angrar
Everest
Nor­urpˇllinn
Su­urpˇllinn
Haraldur Írn :: Fyrri lei­angrar :: Su­urpˇllinn

Su­urpˇllinn


EFTIR HARALD ÖRN ÓLAFSSON

Á vit Suðurskautslandsins

Punta Arenas er fremur kuldalegur og vindbarinn bær syðst í Chile. Hann stendur við Magellan sundið en handan þess er Eldland sem er syðsti hluti Suður-Ameríku. Sundið er nefnt eftir sæfaranum Magellan sem fyrstur sigldi þar um af Evrópumönnum árið 1520.

Þessi ágæti staður var síðasti viðkomustaður okkar áður en við flugum á vit Suðurskautslandsins. Leiðangurinn var samansettur af Grænlandsjökulskuldabolunum Ingþóri Bjarnasyni, Ólafi Erni Haraldssyni og Haraldi Erni Ólafssyni. Við komum okkur fyrir á Hotel Condor de Plata og hófum lokaundirbúning fyrir gönguna miklu á Suðurpólinn. Það var að mörgu að hyggja. Búnaðinum var dreift út um allt hótelherbergið og við hófumst handa. Maður á erfitt með að trúa því hversu mikil vinna er að undirbúa eina pólferð. Í raun er maður aldrei enanlega tilbúinn. Það er endalaust hægt að breyta og bæta.

Við höfðum gert samning við fyrirtækið Adventure Network International um að flytja okkur frá Chile, yfir Drake sundið og á Suðurskautslandið. Félagið hélt úti nokkurs konar áætlunarferðum á milli Punta Arenas og tjaldbúðanna Patriot Hills yfir sumartímann (sumarið á suðurhveli jarðar er frá nóvember til febrúar). Patriot Hills búðirnar eru í útjaðri Suðurskautslandsins þar sem jökullinn mætir íshellunni og ákváðum við að gera það að upphafsstað göngunnar. Til að komast á þennan upphafsstað þurfum við að fljúga með Hercules herflutningavél sem ANI var með á leigu. Flugleið yfir á Suðurskautslandið er bæði löngu og áhættusömu. "Flugbrautin" í Patriot Hills er glæra ís. Þar sem lendingin er mjög vandasöm þurfa aðstæður að vera fullkomnar svo hægt reyna flugið frá Punta Arenas. Það verður því oft raunin að bíða þarf dögum saman áður en áætlað flug getur átt sér stað.

Það var búið að kalla okkur tvisvar sinnum út á flugvöll til að fara í loftið en alltaf var brottför aflýst á síðustu stundu þar sem verðurspár höfðu breyst. Þriðja daginn í röð fórum við út á völl og þá gekk allt upp. Eftir að hafa stefnt á þetta markmið í mörg ár og gríðarlegan undirbúning síðustu mánuðina vorum við loksins á leið til móts við Suðurskautslandið.

Lendingin í Patriot Hills var nokkuð harkaleg. Þrátt fyrir að lent sé á jökli eru engin skíði undir vélinni, einungis hjól sem reyndar eru í stærri kantinum. Ísinn er langt frá því að vera sléttur. Það var ógleymanlegt að koma út úr flugvélinni. Ískaldur heimskautavindurinn og skerandi birtan tóku á móti okkur. Það leyndi sér ekki að sú veröld sem við vorum að ganga inní var í senn harneskjuleg og fjandsamleg. Það myndi taka nokkurn tíma að venjast þessu nýja veruleika sem við vorum að fara að takast á við.

Búðirnar í Patriot Hills eru nokkuð stórar þar sem þær eru miðstöð fyrir leiðangra sem eru að fara í ýmis verkefni. Sumir eru að fara á Suðurpólinn en aðrir á Vinson Massif sem er hæsta fjall Suðurskautslandsins auk þess sem ýmsir hópar fara að skoða mörgæsabyggðir eða til rannsóknarstarfa á svæðinu. Við fengum kvöld mat og slóum upp tjaldi. Um nóttina gerði mikinn storm, um 34 m/s með -25° frosti. Tjaldið okkar sem var af gerðinni The North Face Himalayan Hotel stóð þetta auðveldlega af sér. Daginn eftir tókum við í lokaundirbúning.

Gangan mikla

Það var stór stund 12. nóvember 1997 þegar við lögðum af stað frá Patriot Hills búðunum í átt að Suðurpólnum. Framundan var tveggja mánaða glíma við endalausar ísbreiður, kulda og mótvind. Samkvæmt GPS tækinu áttum við 1.100 kílómetra göngu fyrir höndum.

Strax fyrsta daginn mætti okkur stífur og ískaldur vindur. Frostið var um -22°C og vindurinn um 12 m/s og fundum við mikið fyrir kuldanum. Vindurinn kom beint á móti okkur úr suðri. Við vissum að þannig yrði það alla ferðina. Þetta er stöðugi vindur (e. katabatic wind) fellur ofan af hásléttu Suðurskautslandsins og norður til strandar.

Við vorum með mikinn búnað og mat til tveggja mánaða og voru sleðarnir því um 120 kíló hver. Við vorum enn að venjast erfiðinu og kuldanum og fórum því ekki langt fyrstu dagana. Gengin vegalengd jókst samt jafnt og þétt með hverjum degi enda var nauðsynlegt fyrir okkur að fara yfir 20 kílómetra á dag til að ná á pólinn áður en maturinn kláraðist.

Strax fyrstu dagana kynntumst við í fyrsta sinn rifsköflunum (sastrugi) sem áttu eftir að fylgja okkur mest alla ferðina á pólinn. Þetta eru skaflar sem myndast á yfirborðinu vegna fallvindsins líkt og sandöldur í eyðimörk. Það var töluvert erfiði að draga þunga sleðana yfir hvern skaflinn á fætur öðrum með tilheyrandi rykkjum.

Að morgni níunda dags var mjög kalt. Frostið var -23°C og vindurinn um 16 m/s. Færið var stíft og þungt og miklir skaflar. Það bætti stöðugt í vindinn sem var kominn og þegar leið á daginn var hann kominn í 20 m/s. Við börðumst á móti vindinum og í lok dags vorum við alveg uppgefnir. "Mjög erfiður dagur" skrifaði ég í dagbókina mína. Erfiðið skilaði okkur tæpum 20 kílómetrum en við borguðum það fullu verði. Daginn eftir fundum við enn fyrir þreytu eftir átökin en það var ekki um annað að gera en að drífa sig út og halda áfram. Þannig var erfiðið stöðugt dag eftir dag og viku eftir viku. Það var enga hvíld að fá.

Á ísbreiðunni

Dagarnir liðu einn af öðrum. Við vorum búnir að venjast erfiðinu, kuldanum og vindinum en álagið fór einnig að segja til sín. Ég glímdi við slæman verk í öxlum, Ingþór var brunninn og bólginn á vörunum og Ólafur var með tannverk. Andlit okkar voru rauð og þrútin undan stöðugu sólskini og vindbarningi. En þrátt fyrir allt álagið vorum við líkamlega mjög vel á okkur komnir og baráttuandinn var til staðar. Við vorum staðráðnir í að leggja okkur alla í verkefnið og ná á pólinn.

Sólin var á lofti allan sólarhringinn. Lítill munur var á degi og nóttu, hún bara hringsólaði í kringum okkur. Þessu fylgdi sá ótvíræði kostur að á kvöldin og nóttunni yljaði sólin tjaldið okkar sem gerði vistina í því mjög þægilega og góða þrátt fyrir allan kuldan úti. Þegar við vorum að bærða snjó og elda matinn var hitinn í tjaldinu stundum svo mikill að það lá við að við værum beirir að ofan. Þá sjaldan að ský dró fyrir sólu kólnaði mikið inni í tjaldinu og fundum við þá vel hversu mikil þægindi fylgdu geislum hennar.

Rifskaflarnir (sastrugi) voru misslæmir. Reglulega gengum við í gegnum mjög slæma fláka af sköflum sem gátu orðið yfir meters háir. Þessi svæði voru mjög torfarin með þunga sleðana og þeim fylgdu miklir rykkir sem fóru illa í bakið. Stundum skrifaði ég "djöfullegir skaflar í dag" í dagbókina mína enda gátu skaflarnir farið mjög í taugarnar á manni.

Við skiptumst á að vera fremst. Því fylgdi sú ábyrgð að halda réttri stefnu. GPS tækið okkar gaf okkur rétta stefnu að kvöldi dags sem við notuðum síðan allan næsta dag. Til að halda réttri stefnu notuðum við bæði áttavitan og skuggann af okkur. Skugginn færðist til eftir sólarganginum og urðum við því reglulega að líta á áttavitan til að leiðrétta kúrsinn. Fremsti maður þurfti einnig að fylgjast með tímanum því að hver göngulota var nákvæmlega 1,5 klukkustund og stranglega var bannað að fara framyfir þann tíma. Eftir hverja göngulotu var tekin stutt hvíld þar sem við drukkum og borðuðum. Það var óneitanlega þægilegra að vera fyrir aftan fremsta mann og geta gleymt sér í hugrenningum. Þannig leið tíminn hraðar.

Fyrstu vikurnar var dagsgangan að skila okkur 20 til 22 kílómetrum. Þegar kom fram í desember fór færið að skána og dagleiðirnar að lengjast. Þann 3. desember var bæði veður og færi einstaklega gott sem skilaði okkur rúmum 28 kílómetrum. Tveimur dögum síðar var mikill stormur úti þegar við vöknuðum að morgni. Við ákváðum að bíða veðrið af okkur enda ekkert vit í að halda út í vindkælinguna sem þessu fylgdi. Þó að við sæum eftir kílómetrum dagsins vorum við hvíldinni fegnir enda höfðum við gengið sleitulaust í 23 daga. Daginn eftir hafði vindurinn gengið niður og við gátum haldið göngunni áfram.

Nú birtust Thiel fjöll á sjóndeildarhringnum sem var mikil tilbreyting frá endalausri og tilbreytingarlausri ísbreiðunni. Þann 8. desember gerði aftur mikinn vind en þrátt fyrir það tókum við upp tjaldið og héldum af stað í átt að Suðurpólnum. Eftir tvær göngulotur urðum við þó að gefa okkur því að hættan á kali var allt of mikil.

Takmarkið nálgast

Þegar dró að jólum tók færið aftur að þyngjast og dagleiðirnar fóru að styttast að nýju. Við vorum komnir upp á hásléttu Suðurskautslandsins í yfir 2.000 metra hæð og vel er þekkt hversu stífur snjórinn er þegar þangað er komið. Sleðarnir voru þungir í drætti þrátt fyrir að léttast með hverjum deginum enda minnti færið fremur á sand heldur en snjó.

Á aðfangadag slepptum við að ganga síðustu göngulotuna til að halda jólin hátíðleg. Við hituðum upp lítinn bita af hamborgarahrygg sem við höfðum með okkur og hugsuðum heim. Það var sérkennileg tilfinning að vera um jólin á víðáttum Suðurskautslandsins, eins langt frá mannabyggðum og hugsast gat. Þetta var fyrir daga gervihnattsíma og gátum við því ekki hringt heim. Við fengum þó jólakveðjur í gegnum talstöðina.

Nú fór tilhlökkunin að ná langþráðu takmarki að gera vart við sig. Það var gaman að sjá vegalengdina í Suðurpólinn styttast hratt með hverjum deginum. Í upphafi ferðar var ein dagleið eins og dropi í hafið en nú nálgaðist póllinn hratt.

Á gamlársdag sáum við torkennilegan dökkan díl á sjóndeildarhringnum. Það tók nokkurn tíma að átta sig. Þrátt fyrir að við ættum enn 25 kílómetra í Suðurpólinn sáum við glitta í vísindastöðina sem þar er. Mikil fagnaðaróp brutust út. Loksins, loksins vorum við að ná á þessu stóra takmarki sem við höfðum lagt svo mikið á okkur til að ná.

Daginn eftir var komið nýtt ár og við tókum upp tjaldið í síðasta skipti. Það var hátíðlegt að ganga síðustu kílómetrana á fyrsta degi ársins. Vísindastöðin stækkaði stöðugt og tók á sig mynd. Fyrst komum við að flugbraut sem var troðin í snjóinn, en þegar yfir hana var komið komum við auga á flöggin sem merkja pólinn sjálfan. Á pólnum tók hópur fólks á móti okkur og fagnaði okkur innilega. Þetta voru starfsmenn vísindastöðvarinnar. Við fögnuðum lengi á pólnum og nutum stundarinnar. Eftir að hafa haft skíðin undir fótunum í 51 dag fannst okkur einkennileg tilfinning að þurfa ekki að vakna morguninn eftir og halda áfram að ganga.

Starfsmenn vísindastöðvarinnar tóku vel á móti okkur og hleyptu okkur í sturtu og fengum við að borða í mötuneytinu. Einnig fengum við að kynnast þeim merkilegu rannsóknum sem þarna fara fram.

Tíminn leið hratt og fyrr en varði kom Twin Otter skíðaflugvél frá Patriot Hills að sækja okkur. Við flugum sömu leið til baka og við höfðum gengið. Það var einkennileg tilfinning að sjá alla þessa vegalengd svífa hjá.

Í Patriot Hills fengum við glæsilegar móttökur. Þar var fjölmenni úr ýmsum leiðöngrum. Nokkur töf varð á að við kæmumst áfram til Chile þar sem ekki var flugveður. Við eyddum því nokkrum dögum í að hvílast og safna kröftum.

Eftir nokkurra daga bið kom Hercules vélin loks frá Chile. Við stigum um borð og kvöddum Suðurskautslandið. Að baki var löng og krefjandi ferð sem skildi eftir sig ógleymanlegar minningar og upplifun sem er forréttindi að fá að geyma með sér.

+ Myndir


                                     
Kort
T÷lfrŠ­i
HeimsßlfaSu­urskautslandi­
Vegalengd1.100 km.
Dagar51
TÝmiNˇv.-des. 1997
milli
FjallafÚlagi­ ehf
milli
Kt. 560909-1010
milli
fjallafelagid@fjallafelagid.is
milli
milli milli