Perlur Albaníu 15. maí 2025

07.05.2024

Fjallafélagið býður lúxus ferð til Albaníu.

Áhersla verður lögð á fallega gististaði, skemmtilegar göngur í stórkostlegri náttúru um suður Albaníu, heimsóknir á sögulega staði, góðan mat og lúxus strandlíf við Adríahafið.  Hópnum verður ekið í Merzedes Benz smárútu, en til gamans má nefna að talað er um að Benzar fari til Albaníu að deyja.

Albanía er ekki þekktasti ferðamannastaður Evrópu, en líklega mun það breytast hratt á næstu árum. Landið er hluti af Balkanskaga og er ótrúlega fallegt með háum fjöllum, djúpum dölum og einstökum náttúruperlum.

Albanía var lokaðasta land Evrópu og var undir hæl einræðisherra frá 1946 til 1988. Eftir að hann kvaddi hófst uppgangur sem síðan hrundi þegar ríkissjóður landsins tapaðist í pýramída svindli. Það má segja að farið sé í nokkurs konar tímavél því að tilfinningin er oft eins og maður sé kominn áratugi aftur í tímann. Innviðir eru hægt og bítandi að byggjast upp, vegakerfið er að styrkjast og ferðamenn eru að uppgötva þetta stórkostlega land. Í Albaníu búa um 2,8 milljónir manna.

Ferðamenn eru sérstaklega velkomnir og alls staðar er þeim tekið með kostum og kynjum. Maturinn er einstaklega bragðgóður og ferskur, líkastur grískum mat, þá sérstaklega þar sem ferðin verður í suður Albaníu nærri grísku landamærunum.

Þessi ferð lætur engan mann ósnortinn og maður upplifir sterkt að maður verður að koma fljótt aftur til að upplifa meira af stórkostlegri náttúru landsins, gestrisni heimamanna og að fá að upplifa fallegt mannlíf í frumstæðasta landi Evrópu.

Fararstjóri

Fararstjóri er Erlendur Pálsson sem lauk  á síðasta ári ársferðalagi um Evrópu og segir hann að Albanía sé það land sem stóð upp úr á ferðalaginu og brennur fyrir að kynna Albaníu fyrir ferðaglöðum Íslendingum.

Fjöldi þátttakenda

Lágmark 10 og hámark 12

Innifalið í ferðinni

  • Gisting í tveggja manna herbergjum/tjöldum. Aukagjald fyrir einbýli er 69.000 kr.
  • 5 nætur á 4* hótelum
  • 2 nætur í fallegu afskekktu gistiheimili
  • 2 nætur í lúxus “glamping” tjöldum
  • Allur matur sem er tekin fram í ferðalýsingu
  • Akstur
  • Íslenskur og albanskir leiðsögumenn

Ekki Innifalið

  • Flug
  • Máltíðir sem eru ekki teknar fram í leiðarlýsingu
  • Ferðatrygging
  • Drykkir nema annað sé tekið fram.
  • Ferðir, aðgangseyrir eða viðburðir sem eru ekki í leiðarlýsingu
  • Þjórfé

Tryggingar

Athugið að engar tryggingar eru innifaldar í verði ferðarinnar og mikilvægt er að þátttakendur séu að fullu tryggðir. Fjallafélagið mælir með að þátttakendur kaupi sérstaka forfallatryggingu um leið og ferðin er bókuð. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tryggingin nái yfir kostnað við ferðina í heild sinni (ekki aðeins yfir fargjaldið og gistikostnaðinn)

Flug

Það er ekkert beint flug til Albaníu frá Íslandi. Það má gera ráð fyrir að flugið kosti um kr. 170.000.- báðar leiðir. Fjallafélagið mun mæla með flugleiðum þegar nær dregur.

Tungumál

Flestir Albanir tala góða ensku en í afskekktum héruðum er líkleg að eina tungumálið sé albanska. Alla ferðina verður leiðsögumaður með hópnum sem talar bæði albönsku og ensku.

Öryggi

Þrátt fyrir það sem margir halda er Albanía líklega eitt af friðsælustu og öruggustu löndum Evrópu. Hópurinn verður í góðum höndum leiðsögumanna.

Bókun

Hægt er að bóka ferðina með því að smella á “Bóka ferð” og greiða staðfestingargjald. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fjallafelagid@fjallafelagid.is. Staðfestingargjald er kr. 45.000. Fjallafélagið sendir póst til þátttakenda þegar lágmarksþátttöku hefur verið náð og brottför staðfest.

Skilmálar

Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér skilmála Fjallafélagsins sem hægt er að nálgast hér: https://fjallafelagid.is/skilmalar/

TÍMALENGD

10 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá ferðalýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

440.000 kr

Availability: In stock

Product price
Additional options total:
Samtals:

DAGSKRÁ

Dagur 1 – fimmtudagur 15. maí – Komudagur og ekið til Tirana
Þennan dag er komið til höfuðborgarinnar Tírana með flugi. Fararstjórar taka á móti hópnum og er í framhaldinu ekið á hótel í miðborginni þar sem gist er um nóttina. Athugið að flugið er ekki innifalið í verði ferðarinnar. Fjallafélagið er með tillögu um flug með Lufthansa sem lendir að kvöldi 15.maí í Tirana.

Innifalið: Akstur frá flugvelli, og gisting á 4 stjörnu hóteli í miðborg Tirana. 

Dagur 2 – föstudagur 16. maí – Tirana til Labove 

Hittumst eftir morgunverð og förum í stutta gönguferð um Skanderbeg Square. Förum frá Tirana um kl 11:30, ökum suður á bóginn með hádegisverðastoppi á vínbúgarði. Eftir hádegisverð og vínsmökkun ökum við til bæjarins Gjirokastra sem er á heimsminjaskrá Unesco. Þetta er fæðingarbær Enver Hoxa sem var einræðisherra Albaníu en hann hélt landinu lokuðu frá umheiminum á svipaðan hátt og Norður Kórea. Hópurinn fær leiðsögn um bæinn og fræðist um merka sögu Gjirokastra og Albaníu. Höldum þaðan að litlu þorpi þar sem við gistum næstu 2 nætur í nýuppgerðu húsi.
Innifalið: Morgunverður, hádegisverður, vínsmökkun og kvöldverður. Akstur og gisting á 4 stjórnu hóteli. 

Dagur 3 – laugadagur 17. maí – Labove – Poshtme göngudagur

Eftir morgunverð verður okkur ekið að upphafstað göngu dagsins. Áætlum að vera komin aftur síðdegis. 

Innifalið: Morgunmatur og nestisbox (hádegisverður) ásamt gistingu á 4 stjörnu hóteli. 

Dagur 4 – sunnudagur 18. maí – Labove – Peret – göngudagur
Tökum daginn snemma, verðum sótt á jeppum og verður okkur ekið að upphafstað göngunnar þorpið Sheper sem er erfitt að komast að. Hefjum þar gönguna um fjallasvæði sem er aðeins notað af sauðfjárhirðum. Áætlum að gangan taki um 6 klst. með hádegisverðastoppi (nesti). Endum gönguna í þorpinu Leusa þar sem við gistum á fallegu gistiheimili, þar bíður eftir okkur farangurinn okkar.
Innifalið: Allar máltíðir, akstur og gisting á afskekktu fallegu gistiheimili.

Dagur 5 – mánudagur 19. maí – Permet – ganga

Eftir góðan morgunverð leggjum við af stað í göngu dagsins. Göngum meðal annars að fossunum í Sopoti og að “skálinni” við Nemercke fjallið. Stoppum á fallegum stað og borðum hádegisverð (nesti).

Innifalið: Allar máltíðir, akstur og gisting á afskekktu fallegu gistiheimili.

Dagur 6 – þriðjudagur 20. maí – Permet – Nivicha – ganga

Verðum sótt kl 8 og ökum fáfarnar slóðir inn á milli fjalla sem nefnist Kurvelesh á milli fjallanna er hrikalegt Nivica gil og er eitt lengsta gil Evrópu um 40 km langt. Þetta er svæði sem fáir túristar hafa komið til enda var vegurinn illfær til 2022 þegar hann var malbikaður.
Þar munum við gista í 2 nætur í lúxus “Glamping” tjöldum sem eru uppsett undir stráþaki og er útsýnið frá tjöldunum engu líkt.  Tjöldin eru 2 manna með baðherbergi.
Innifalið: Morgunverður, hádegisverður (nesti)kvöldverður, akstur og gisting í lúxus tjöldum. 

Dagur 7 – miðvikudagur 21. maí – Göngudagur um Nivicha

Þessi dagur er göngudagur og við stefnum á hæsta tind fjallgarðsins sem heitir Këndrevicës 2122 metrar, enn og aftur þarf að meta aðstæður með hversu hátt við komumst en það getur verið talsverður snjór á þessum tíma. Gangan tekur um 6 – 8 tíma.
Eftir gönguna bíður okkar glæsileg kvöldmáltíð og önnur ævintýra nótt í glamping tjöldunum
Innifalið: Allar máltíðir, nesti, fjallaleiðsögn frá heimamanni og gisting í lúxus tjöldum.

Dagur 8 – fimmtudagur 22. maí – Nivica til  Dhermi

Eftir stórkostlega náttúruupplifun er stefnan tekin á albönsku ríveruna. Ökum við um fjöllin í Kurvelsh og stoppum á völdum stöðum á leiðinni. Við endum aksturinn á Albönsku Rivierunni þar sem sjórinn er kristal tær. Það er dásemd að snorkla og skoða náttúruna í sjónum eða bara að slaka á, á hótelinu sem við gistum í næstu 2 sólahringa.

Innifalið: Morgunverður og gisting á 4 stjörnu hóteli ásamt akstri.
Ekki innifalið: Hádegis og kvöldverður og afþreying á svæðinu.

Dagur 9 – föstudagur 23. maí – Strandlíf.
Áframhaldandi strandlíf á Rivierunni. Fyrir þá sem hafa ekki þolinmæði fyrir strandlífi er möguleiki á að fara í bátsferð og skoða Karaburun skagann sem hefur sérstakar kletta myndanir, fallegar strendur og kristalstær sjórinn glampar undir skipinu.
Innifalið: Morgunverður og gisting á 4 stjörnu hóteli.
Ekki innifalið: Hádegis og kvöldverður. Bátsferð eða afþreying á svæðinu.

 

Dagur 10 – laugadagur 24. maí – Heimferðardagur.
Stefnt er á að fljúga heim síðdegis.
Innifalið: Morgunmatur og akstur á flugvöllinn.