Mont Blanc hringurinn

21.8.2021

Mont Blanc hringurinn (Tour du Mont Blanc eða TMB) er ein vinsælasta gönguleið Alpanna og ekki að ástæðulausu. Hún býður upp á einstaka náttúrufegurð og óviðjafnanlegt útsýni. Grænir dalir, fjallaskörð, jöklar og glæsilegir tindar er meðal þess sem ber fyrir augu. Þessi ferð er skemmtileg blanda af stuttbuxnaferð og jöklaferð og allt þar á milli. Einnig eru mörg tækifæri til að njóta franskrar og ítalskrar menningar í mat og drykk. 

Í þessari ferð förum við besta hluta TMB hringsins frá Chamonix til Courmayeur og lokum svo hringnum með því að ganga á jökli yfir fjallgarðinn aftur til Chamonix og komumst við þá í beina snertingu við fjallið hvíta eins og Mont Blanc er nefnt.

Ferðin verður farin 21. – 28. ágúst 2021 og gengið verður fimm daga. Gengnar verða fjórar dagleiðir af Mont Blanc hringnum og er hæst farið í 2.500 m. í fjallaskörðum.  Eftir góða hvíld í Courmayeur förum við í kláfi upp í 3.400 m. hæð og þverum jökulinn frá Ítalíu til baka til Frakklands og endum á tindi Aiguille du Midi í 3.842 m. hæð og tökum þaðan kláf niður í Chamonix.

Innifalið:
  • Undirbúningsfundur
  • Rútuferðir, frá Genf til Chamonix og til baka og frá Chamonix til Les Contamines
  • Strætó á degi 5 og 6
  • Gisting í 7 nætur, 3 í fjallaskála og 4 á hóteli m.v. tvo í herbergi
  • 7 morgunverðir
  • 3 kvöldverðir í fjallaskálum
  • Kláfur frá Courmayeur upp í Pt. Helbronner og kláfur frá Aguille du Midi niður til Chamonix
  • Íslensk fararstjórn

Hægt er að fá gistingu í eins manns herbergi á hótelum gegn aukagjaldi.
Hægt að framlengja ferðina og eru þátttakendur þá á eigin vegum.
Flug er ekki innifalið í ferðinni og sér hver og einn þátttakandi um að bóka flug til Genf og til baka.

Hámarksfjöldi:

18

Undirbúningur:

Þessi ferð er krefjandi og mikilvægt er að þátttakendur þjálfi sig vel fyrir ferðina.

Búnaður:

Búnaðarlisti verður sendur til þátttakenda, en tekið skal fram að fyrir gönguna um Vallee Blanche á 7. degi þarf m.a. að hafa skjólgóðan fatnað, gönguskó, mannbrodda, ísöxi, klifurbelti og karabínu. Ekki þarf þó að bera jöklabúnaðinn með allan tímann því hann verður sendur á hótelið okkar í Courmayeur.

Tryggingar:

Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa forfalla- og ferðatryggingu auk leitar- og björgunartryggingu.

Fararstjórar:

Tveir fararstjórar. Haraldur Örn Ólafsson mun leiða þessa göngu.

Bókun:

Hægt er að bóka ferðina með því að senda tölvupóst á fjallafelagid@fjallafelagid.is. Staðfestingargjald er kr. 30.000,-. Verði ferðinni aflýst vegna covid eða af öðrum ástæðum er staðfestingargjaldið endurgreitt að fullu.

TÍMALENGD

8 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá lýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

ALMENNT VERÐ

295.000 kr.

FJALLAFÉLAGAR

295.000 kr.

Out of stock

DAGSKRÁ

Dagur 1, laugardagur 21. ágúst:

Flogið til Genfar í Sviss þar sem við lendum um kl. 13:00 og ökum í rúma klukkustund til franska bæjarins Chamonix sem
er einn stór dótakassi fyrir fjallafólk. Frjáls tími það sem eftir er dags.

Dagur 2, sunnudagur 22. ágúst:

Keyrum til þorpsins Les Contamines þar sem við hefjum gönguna. Hækkum okkur fljótlega eftir gömlum rómverskum stíg, alla leið upp í fjallaskarðið Col de la Croix du Bonhomme þar sem við gistum í skála sem fær allar sínar  vistir með þyrlu.
Vegalengd 18 km. Hækkun 1.350 m. Lækkun 0 m.

Dagur 3, mánudagur 23. ágúst:

Frá Croix du Bonhomme er gengið yfir annað fjallaskarð þar sem við náum hæsta punkti ferðarinnar í 2.665 mtr hæð. Síðan er snörp lækkun uns komið er að Les Mottets þar sem við borðum hádegismat. Þá tekur við ansi brött fjallshlíð sem endar á landamærum Frakklands og Ítalíu þar sem Mt. Blanc blasir við. Þaðan er þægileg ganga niður í ótrúlega fallega staðsettan skála, Refugio Elisabetta, sem stendur undir skriðjökli.
Vegalengd 20 km. Hækkun 1.100 m. Lækkun 1.200 m.

Dagur 4, þriðjudagur 24. ágúst:

Gengið frá Elisabetta meðfram fjallshlíð þar sem útsýnið er stórfenglegt á Mont Blanc, tindana í kring, skriðjökla, jökulruðninga o.fl. Ógleymanlegur dagur. Endum á hóteli í Courmayeur.
Vegalengd 16 km. Hækkun 530 m. Lækkun 1430 m.

Dagur 5, miðvikudagur 25. ágúst:

Gengið frá Courmayeur til fjallaskálans Rifugio Bonatti, sem er einn sá flottasti á TMB og  býður upp á dásemdar mat og snyrtilegan svefnskála. Áframhaldandi stórfenglegt útsýni yfir á suðurhlið Mt. Blanc.
Vegalengd 14 km. Hækkun 860 m. Lækkun 700 m.

Dagur 6, fimmtudagur 26. ágúst:

Göngum niður úr Bonatti skálanum ofan í Val Ferret dalinn og tökum strætó til baka til Courmayeur og hvílum það sem eftir er dags. Í bænum er gaman að skoða safn sem er tileinkað fjallaleiðsögumönnum Alpanna, njóta ítalska matarins, fegurðar  bæjarins og ekki síst að slaka vel á og undirbúa okkur fyrir jöklagönguna daginn eftir.

Dagur 7, föstudagur 27. ágúst:

Þennan dag göngum við yfir sjálfan Mont Blanc fjallgarðinn og komumst í beina snertingu við fjallið hvíta. Tökum kláf upp í Pt. Helbronner í 3462 mtr hæð, þar sem við hefjum gönguna yfir hvíta dalinn – Vallee Blanche. Gangan yfir jökulinn ber okkur í gegnum völundarhús af stórum sprungum, með fjallarisana til beggja handa; Dent du Géant, Mt. Blanc du Tacul og auðvitað sjálfan Mt. Blanc. Endum á bröttum snjóhrygg upp í Aguille du Midi kláfstöðina þaðan sem við tökum kláfinn niður til Chamonix.
Vegalengd 7 km. Hækkun 650 m. Lækkun 280 m.

Dagur 8, laugardagur, 28. ágúst:

Heimferð. Flogið frá Genf.

MYNDIR

GERAST FJALLAFÉLAGI