Kilimanjaro september 2023

3.9.2023

LOKUÐ FERÐ

Kilimanjaro er 5.895 metra hátt fjall sem gnæfir tignarlegt yfir sléttum Tansaníu. Þetta er hæsta fjall Afríku en einnig hæsta frístandandi fjall heims – sannkallaður eldfjallarisi sem rís upp úr skýjunum og spannar fjögur veður- og gróðurbelti. Villt og framandi náttúra Afríku ásamt mögnuðu dýralífi og menningu heimamanna er það sem umlykur ferðafólk og skapar einstaka stemmningu.

Fjallið tilheyrir Kilimanjaro þjóðgarðinum sem var stofnaður árið 1977. Það eru fjögur gróðurbelti í fjallinu, regnskógur (1800-2800m.), heiðarlönd (2800-4000m.), alpalandslag (4000-5000m.) og jöklasvæði (5000+ m.). Eins og gefur að skilja er veðurfar mjög ólíkt í mismunandi hæð og fólk upplifir gríðarlegan fjölbreytileika í landslagi alla gönguna. Við munum ganga Machame leiðina sem er sunnan megin í fjallinu en hún er í senn fjölbreytt og heillandi leið. Gengið er á 7 dögum upp og niður en einn dagur er mjög stuttur og án teljandi hækkunar. Gist er í tjöldum allar næturnar í göngunni en burðarmenn sjá um að tjalda og hafa umsjón með öllum viðlegubúnaði. Þeir sjá einnig um eldamennsku og aðra aðstoð við ferðafólk.

Gangan getur orðið krefjandi á efstu hlíðum fjallsins vegna þunna loftsins og þarf ferðafólk því að vera vel undirbúið. Kalt verður á kvöldin og nóttunni í efri hluta fjallsins og þarf svefnpoki og fatnaður að miðast við það. Gangan krefst engrar sérstakrar tæknikunnáttu eða reynslu af fjallamennsku.

Innifalið
 • Íslensk fararstjórn
 • Akstur til og frá flugvelli við komu og brottför
 • Gisting 1 nótt á hóteli fyrir göngu og 1 nótt á hóteli eftir göngu
 • Akstur að fjallinu og til baka
 • Öll þjónusta á fjallinu en okkur munu fylgja yfirleiðsögumaður, aðstoðarleiðsögumenn, kokkur, aðstoðarkokkur og burðarmenn
 • Allur sameiginlegur búnaður á fjallinu svo sem svefntjöld, matartjald og eldhústjald.
 • Allur matur á fjallinu
 • Þjóðgarðsgjöld

Í verðinu er ekki innifalið:

 • Flug til og frá Tansaníu
 • Vegabréfsáritun
 • Persónulegur búnaður
 • Ferða-, slysa- og farangurstrygging
 • Þjórfé, drykkir og önnur persónuleg eyðsla
 • Hádegis- og kvöldverðir fyrir og eftir göngu
 • Önnur þjónusta/afþreying sem ekki er tekin fram í leiðarlýsingu.

Hægt er að fá gistingu í eins manns herbergi á hótelum gegn aukagjaldi. Fjallafélagið mun benda á ákveðin flug sem henta frá Íslandi.

Fjöldi

Hámarksfjöldi í þessari ferð er 20.

Fararstjórar:

Haraldur Örn Ólafsson og Kolbrún Björnsdóttir

Undirbúningur:

Þessi ferð er krefjandi og er mikilvægt að þátttakendur þjálfi sig vel fyrir ferðina.

Búnaður:

Farangur verður fluttur milli gististaða af burðarmönnum. Búnaðarlisti verður sendur til þátttakenda.

Tryggingar:

Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa forfalla- og ferðatryggingu. Fjallafélagið mælir með að þátttakendur kaupi sérstaka forfallatryggingu um leið og ferðin er bókuð. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tryggingin nái yfir kostnað við ferðina í heild sinni (ekki aðeins yfir fargjald og gistikostnað).

Bókun:

Hægt er að bóka ferðina með því að smella á “Bóka ferð” og greiða staðfestingargjald. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fjallafelagid@fjallafelagid.is. Staðfestingargjald er kr. 25.000.

Skilmálar:

Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér skilmála Fjallafélagsins sem hægt er að hálgast hér: https://fjallafelagid.is/skilmalar/

TÍMALENGD

9 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá lýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

490.000 kr.

Availability: Out of stock

Uppselt er í ferðina / hópinn. Þú getur skráð þig á biðlista og við látum þig vita um leið og hægt er að skrá sig að nýju.

DAGSKRÁ

Sunnudagur 3. september 2023

Miðað er við að þátttakendur fljúgi frá Íslandi 2. september. Flugið er ekki innifalið en Fjallafélagið mun benda á tiltekna flugleið fyrir þá sem vilja ferðast saman. Ferðin hefst við komuna á Kilimanjaro flugvöllinn og er okkur ekið til bæjarins Moshi. Við undirbúum okkur fyrir ferðina og njótum sameiginlegs kvöldverðar. Gisting er á hóteli í tveggja manna herbergjum.

Mánudagur 4. september 2023

Eftir góðan morgunverð á hótelinu ökum við af stað og komum að Machame-hliðinu í þjóðgarðinn eftir um u.þ.b. klukkustundar akstur. Þarna hefst gangan okkar á Kilimanjaro í 1.640 m. hæð. Við byrjum á að skrá okkur inn í þjóðgarðinn og hittum svo innfædda burðarmenn og leiðsögumenn okkar. Síðan er haldið af stað í gönguna í inn í regnskóginn. Gangan þennan dag er um 11 km. og mikilvægt er að drekka vel af vatni. Á leiðinni stoppum við og borðum hádegismat. Í lok dags komum við í Machame-búðirnar (2835 m.) þar sem tjöldin okkar bíða. Gist er í tveggja manna tjöldum. Vegalengd er 11 km. og göngutími 5 til 7 tímar.

Þriðjudagur 5. september 2023

Við höldum áfram göngunni upp Kilimanjaro. Brattinn eykst og við yfirgefum regnskóginn en alpagróður og gresjur taka við. Í lok göngunnar komum við í Shira-búðirnar (3850 m.) þar sem við gistum um nóttina. Vegalengd 5 km. og göngutími 4 til 6 tímar.

Miðvikudagur 6. september 2023

Frá Shira búðunum (3.850m) göngum við upp að Hraunturninum (Lava tower 4600 m.) sem er hæsti punktur dagleiðarinnar. Við lækkum okkur síðan niður og gistum í Barranco tjaldbúðunum (3900 m.). Vegalengd 10 km. og göngutími 6 til 8 tímar.

Fimmtudagur 7. september 2023

Þessi dagur er fremur stuttur og nýtist vel til aðlögunar. Við göngum frá Barranco búðunum (3950 m) og byrjum á að klífa Barranco-vegginn sem er brött brekka þar sem stundum þarf að styðja sig við með höndum. Við höldum síðan niður í Karanga-dalinn og gistum í Karanga búðunum í 3960 m. hæð. Vegalengd 5 km. og göngutími 4 til 5 tímar.

Föstudagur 8. september 2023

Við göngum frá Karanga búðum upp í efst búðir á fjallinu sem nefnast Barafu camp (4680 m.). Hér er einstakt útsýni og sólsetur á Kilimanjaro er engu líkt. Einnig undirbúum við okkur fyrir gönguna á toppinn og förum snemma að sofa. Vegalengd 4 km. og göngutími 4 til 5 tímar.

Laugardagur 9. september 2023

Nú er komið að stóru stundinni og við leggjum af stað í gönguna á toppinn. Þetta er langur og erfiður dagur en verðlaunin eru að standa á Uhuru (5895 m.), hæsta tindi Afríku. Fyrsta takmark okkar er Stella Point sem er á gígbrúninni. Þetta er erfiðasti hluti göngunnar enda farinn í myrkri. Við njótum sólarupprásarinnar og höldum svo síðast hlutann á hæsta tindinn. Eftir stutt stopp og myndatökur á toppnum höldum við aftur niður í efstu búðir og borðum þar hádegismat. Svo höldum svo áfram, alveg niður í Mweka búðirnar í 3100 m. hæð. Vegalengd 5 km. upp og 12 km. niður. Göngutími 7 til 8 tímar upp og 5 til 6 tímar niður.

Sunnudagur 10. september 2023

Við göngum nú niður fjallið í gegnum frumskóginn að Mweka hliðinu þar sem við ljúkum fjallgöngunni. Síðan er okkur ekið á hótel í Arusha. Gist er á hóteli í tveggja mannaherbergi. Vegalengd 10 km. og göngutími 5 tímar.

Mánudagur 11. september 2023

Komið er að lokum ferðarinnar. Við kveðjum Afríku og okkur er ekið út á Kilimanjaro flugvöll og við höldum heim á leið. Einnig er í boði að framlengja ferðina og bæta við dögum safari ferð og/eða dögum á Zanzibar.