Jarlhettur Ultra
24. - 27. mars 2023
Gönguskíðaferð fyrir lengra komna
Jarlhettur Ultra er 2 daga gönguskíðaferð fyrir þá sem elska áskoranir og vilja upplifa ný ævintýri í vetrarferðum. Ferðin hefst vestan við Bláfellsháls á jaðri hálendisins og endar í fallegum birkiskóginum rétt austan við Laugarvatn – það verður ekki flottara! Alls eru gengnir 66 kílómetrar á 2 dögum með um 900 metra hækkun og 1.600 metra lækkun. Ferðin er því einungis fyrir einstaklinga sem eru vanir á ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum), eru í góðu líkamlegu formi og hafa reynslu af vetrarferðum. Gist er í eina nótt í skála FÍ við Hlöðuvelli í svefnpokaplássi. Farangur er allur í bakpoka og því er ekki dreginn sleði í þessari ferð.
Fyrri dagurinn er sannkallaður Ultra dagur en þá er skíðað frá Skálpanesi vestan við Bláfellsháls alla leið í skálann við Hlöðuvelli, alls 38 km! Ævintýradagur þar sem m.a. Jarlhettur og Hlöðufell verða á vegi okkar. Seinni daginn eru farnir alls 28 km þar sem hið fáfarna Klukkuskarð við Klukkutinda tengir okkur við flotta niðurleið austan við Laugarvatn. Sjá nánari lýsingu í dagskránni að neðan. Haldinn verður undirbúningsfundur þar sem ítarlega er farið yfir ferðina, búnað, öryggismál o.fl.
Helsti búnaður
- Gönguskíðabúnaður (ferðaskíði, skór, stafir)
- Stór bakpoki, amk 55 lítra
- Skinn undir skíði
- Snjóskófla (ein fyrir hverja tvo)
- Viðeigandi fatnaður til vetrarferðar
- Svefnpoki
Innifalið
Leiðsögn, akstur í fjallajeppa frá Laugarvatni að Skálpanesi, gisting í skála í 1 nótt og undirbúningsfundur.
Bókanir/fjöldi
Hægt er að taka frá sæti með því að greiða staðfestingargjald. Fjöldi í ferð: lágmark 7 / hámark 11 farþegar.
Brotttför ræðst af veðurspá
Við leggjum mikið upp úr að fara í sem bestu veðri í ferðina. Því þurfa þátttakendur að taka frá dagana 24. mars (föstudagur) til 27. mars (mánudagur). Ef veðurspá kallar á breyttan brottfarardag verður ferðin færð fram um einn dag (brottför 24. mars) eða aftur um einn dag (brottför 26. mars). Athugið að gjald er ekki endurgreitt ef einhver þessara daga henta ekki. Ef ferðin fellur niður vegna veðurs er þátttökugjald endurgreitt.
Fararstjóri
Örvar Þór Ólafsson
DAGSKRÁ
Laugardagur 25. mars 2023
Ekið á einkabílum á Laugarvatn en þaðan ferja fjallajeppar hópinn inn á Bláfellsháls og áfram í Skálpanes. Haldið af stað á skíðunum í uþb 700 m. hæð og ferðast meðfram hinum tignarlegu Jarlhettum að Einifelli í grennd við Hagavatn. Áfram er haldið yfir Farið á göngubrú og síðan yfir Lambahraun þar sem tignarlegt Hlöðufellið blasir við. Endað í skálanum við Hlöðuvelli þar sem gist er í svefnpokaplássi. 38 km, 620 m hækkun, 820 m lækkun.
Sunnudagur 26. mars 2023
Frá Hlöðuvöllum er skíðað vestan við Skriðu eftir þægilegu sléttlendi inn Langadal – u.þ.b. 20 km leið að ævintýralegu Klukkuskarðinu. Eftir skarðið er haldið í átt að Hrossadalsbrúnum/Ásum og skíðað niður þægilegar brekkur austan megin við Laugarvatnsfjall þar sem einkabílarnir bíða okkar. 28 km, 300 m hækkun, 810 m lækkun.