Grunnbúðir Everest 29.10.2023

29.10.2023

Hægt er að skrá sig í ferðina með því að senda póst á fjallafelagid@fjallafelagid.is

 

Fjallafélagið stendur fyrir gönguferð í grunnbúðir Everest og á Kalapatthar í lok október 2023.

Leiðin að grunnbúðum Everest er ein magnaðasta og þekktasta gönguleið í heimi og ekki að ástæðulausu. Tilkomumikið landslag og magnaðir fjallstindar gera hvern dag að ævintýri. Á ferð okkar um Khumbudalinn kynnumst við menningu Sherpa fólksins sem þar býr. Áhrif Búddatrúarinnar eru mikil og sjást meðal annars í búddahofum, litríkum bænaflöggum og bænahjólum. Í þessari ferð förum við hæst á Kalapatthar (5645 m.) en þaðan er óviðjafnanlegt útsýni á Everest og fleiri risa.

Ferðin byrjar í Kathmandu, höfuðborg Nepals, þar sem hópurinn fær tækifæri til að skoða sig um, en sú upplifun er mjög ólík þeirri sem hópurinn kynnist í þorpum Himalayafjallanna. Í heildina er ferðin 17 dagar auk ferðadaga til og frá Nepal. Göngudagar eru 13 og að jafnaði er gengið í 5-6 tíma á dag. Gist verður í gistihúsum (tehúsum) nema í Kathmandu þar sem gist verður á hóteli.

Fararstjórar:

Haraldur Örn Ólafsson og Guðrún Ragna Hreinsdóttir

Fjöldi þátttakenda:

Lágmark 8 og hámark 14

Undirbúningur:

Þessi ferð er krefjandi þótt gangan sjálf sé ekki tæknilega erfið. Því er mikilvægt að þátttakendur undirbúi sig vel og æfi reglulega fram að brottför.

Búnaður:

Farangur verður fluttur milli gististaða af burðarmönnum eða jakuxum en þátttakendur bera léttan bakpoka með því sem þarf til dagsins.

Tryggingar:

Athugið að engar tryggingar eru innifaldar í verði ferðarinnar og mikilvægt er að þátttakendur séu að fullu tryggðir. Í ferðinni er farið í 5.645 metra hæð þannig að almennar ferðatryggingar duga ekki. Tryggingin þarf m.a. að ná yfir kostnað við leit og björgun upp í 6.000 metra. Hægt er að fá slíkar tryggingar hjá innlendum tryggingafélögum sem og hjá sérhæfðum fyrirtækjum eins og Global Rescue. Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa forfalla- og ferðatryggingu. Fjallafélagið mælir með að þátttakendur kaupi sérstaka forfallatryggingu um leið og ferðin er bókuð. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að tryggingin nái yfir kostnað við ferðina í heild sinni (ekki aðeins yfir fargjald og gistikostnað).

Innifalið:

• Íslensk fararstjórn
• Öll gisting eins og fram kemur í lýsingu
• Akstur til og frá flugvelli í Kathmandu
• Skoðunarferð um Kathmandu
• Flug til og frá Lukla
• Innlendir leiðsögumenn og burðarmenn
• Allur matur nema hádegis- og kvöldverðir í Kathmandu
• Þjóðgarðsgjöld fyrir Everest þjóðgarðinn

Í verðinu er ekki innifalið:
• Flug til og frá Kathmandu (gera má ráð fyrir 180-200 þús.)
• Vegabréfsáritun
• Persónulegur búnaður
• Hádegis- og kvöldverðir í Kathmandu
• Ferða-, slysa- og farangurstrygging
• Þjórfé fyrir nepalska leiðsögumenn og burðarmenn
• Önnur þjónusta og afþreying sem ekki er tekin fram í leiðarlýsingu

Bókun:

Hægt að bóka með því að senda tölvupóst á fjallafelagid@fjallafelagid.is.

Skilmálar:

Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér skilmála Fjallafélagsins sem hægt er að hálgast hér: https://fjallafelagid.is/skilmalar/

TÍMALENGD

17 dagar

TEGUND FERÐAR

Utanlandsferð

INNIFALIÐ

Sjá lýsingu

ERFIÐLEIKASTIG

VERÐ

kr. 485.000

Out of stock

DAGSKRÁ

29. október. Kathmandu

Lent í Kathmandu þar sem gist verður á góðu hóteli.

30. október. Kathmandu

Skoðunarferð um Kathmandu. Skoðuð verða helstu kennileiti eins og Durbar Square, Pashupatinath Temple og Boudhanath Stupa.

31. október. Kathmandu – Lukla – Phakding (2610m)

Fljúgum til Lukla þar sem við hittum leiðsögumenn okkar og burðarmenn. Ferðin hefst með 3 tíma göngu til þorpsins Phakding. Þorpið er staðsett í fallegum dal og þessi fyrsti hluti göngunnar er að mestu niður í móti.

1. nóvember. Phakding – Namche Bazaar (3440m)

Þetta er fyrsti alvöru göngudagurinn og það mun taka okkur um 6 tíma að ganga upp í Namche Bazaar sem er höfuðborg sjerpanna. Fjallarisar birtast fyrir ofan en djúp gljúfur fyrir neðan. Leiðin liggur meðal annars um hengibrýr hátt yfir Dudh Kosi ánni.

2. nóvember. Namche Bazaar aðlögunarganga (3440m)

Við förum í 4 tíma aðlögunargöngu upp í Everest view hótelið (3.800m) og nýtum restina af deginum til að skoða okkur um í Namche.

3. nóvember. Namche Bazaar – Tengboche – Deboche (3820m)

Leiðin liggur upp í stórkostlegt landslag. Tengboche er einn helgasti staður Nepal og þar er klaustur hvaðan njóta má útsýnis til Everest og Ama Dablam. Áfram er haldið og við lækkum okkur niður til þorpsins Deboche. Gangan tekur um 5 tíma.

4. nóvember. Deboche – Dingboche (4410m)

Höldum áfram upp dalinn til móts við fjallarisa. Við sjáum Ama Dablam hátt yfir okkur og framundan Lhotse og tind Everest. Við endum gönguna í þorpinu Dingboche. Gangan tekur 5-6 tíma.

5. nóvember. Dingboche aðlögunarganga

Við hvílumst nú til að venjast þunna loftinu en förum í 4 tíma aðlögunargöngu og sjáum vonandi Makalu sem er eitt af hæstu fjöllum heims. Gistum aðra nótt á sama stað.

6. nóvember. Dingboche – Lobuche (4910m)

Við höldum áfram og landslagið verður hrjóstrugra. Göngum á um 5 tímum upp til þorpsins Lobuche sem er á mörkum hins byggilega heims í þessum dal. Nú fer lokatakmarkið að nálgast en loftið að þynnast að sama skapi.

7. nóvember. Lobuche – Grunnbúðir Everest – Gorakshep (5125m)

Við höldum nú upp í grunnbúðir Everest (5300m) og við virðum fyrir okkur þennan sögufræga stað og Khumbu ísfallið fyrir ofan. Eftir að hafa sett okkur í spor Hillary og Tensing í örlitla stund, höldum við niður í smáþorpið Gorakshep og gistum þar um nóttina.

8. nóvember. Ghorakshep – Kala Patthar – Pheriche (4.240m)

Snemma morguns klífum við tindinn Kala Pattahar (5645m) og njótum stórfenglegs útsýnis yfir Everest og aðra fjallarisa. Síðan göngum við niður í þorpið Pheriche. Þetta er lengsta dagleiðin, 8-9 tímar.

9. nóvember. Pheriche – Phortse (3840m)

Haldið niður í súrefnisríkara loft. Við stoppum um miðjan dag í Pangboche þar er fallegt klaustur sem við skoðum. Síðan höldum við áfram niður til Phortse þar sem er klifurskóli fyrir sherpa. Gangan tekur 6-7 tíma.

10. nóvember. Phortse – Monjo (2835m)

Við höldum áfram niður dalinn. Komum við í Namche Bazaar en höldum svo áfram niður til Monjo og gistum þar um nóttina.

11. nóvember. Monjo – Lukla (2860m)

Þetta er síðasti dagur göngunnar og við höldum aftur til Lukla þar sem við fögnum áfanganum og gistum um nóttina.

12. nóvember. Lukla – Kathmandu

Flogið aftur til Kathmandu og gistum á góðu hóteli. Restin af deginum er frjáls tími til að slaka á eftir gönguna eða skoða Thamel.

13. nóvember. Kathmandu

Frjáls tími í Kathmandu. Hér er nóg að sjá og upplifa.

14. nóvember. Heimferð

Við höldum út á flugvöll og hefjum ferðina heim.