Sjöunda æfingaferð Fjallafélagsins á Botnssúlur markaði mikil tímamót í undirbúningsferlinu í 9 þúsund metra áskoruninni með því að klifið var í fyrsta sinn fjall hærra en 1000 m og voru þó nokkrir í hópnum sem slógu persónulegt hæðarmet í leiðinni.
140 manns tóku þátt í ferðinni að 8 fararstjórum meðtöldum. Veður var milt en þoka lá þó niður í miðjar hlíðar fjallanna fyrir botni Hvalfjarðar. Gengið var áleiðis eftir Leggjarbrjótsleið en stefnan síðan austur á bóginn upp hrygg Vestursúlu. Tóku þar við snæviþaktar brekkur í bland við hæfilega krefjandi skriður. Allt tók þetta hæfilega í fætur og reyndi á úthaldið. Á tindinum var fögnuður mikill þrátt fyrir að skyggnið væri vart meira en nefslengd. Niður var síðan haldið sömu leið og kom fólk niður að Stóra Botni síðdegis eftir rækilega göngu. Jarðvegur er víða gljúpur á gönguslóðum Fjallafélaga um þessar mundir þar sem frost er að fara úr jörðu og fær því margur því göngumaðurinn að sökkva upp að ökkla í væna drullu með öllum þeim skemmtilegheitum sem því fylgja. Hvað sem því líður, þá fékk mannskapurinn feykifína æfingu í þessari ferð og ljóst er að Hvannadalshnúkur má fara að vara sig.
Næsti viðburður Fjallafélagsins er þriðjudagurinn 23. mars þar sem undirbúningsfundur I fyrir Hvannadalshnjúk verður haldinn.