Fjallaf?lagi? Skrning pstlista
Vi erum  facebook!
+Forsa +Ferir +Myndir +Leiarlsingar +Haraldur rn +Fjallaflagi
Myndir
Elliatindar Snfellsnesi
Snfell
Dyrfjll
Smjrhnjkar/Trllakirkja
Steinafjall undir Eyjafjllum
Toppahopp yfir Skarsheii
verrtindsegg
Kyrrltt Vfilsfelli
vintrafer Vestfiri
Hrtfell Kili
Rjpnafell
Trllakirkja Holtavruheii
Brodda- og saxarfing
Akrafjall
Hulinheimar Mrdals
vintri a Fjallabaki
Best tsnisfjall landsins?
Hasla Botnsslum
Fgur er hlin - rhyrningur
Sveinstindur rfajkli
Ljsufjll fyrir lengra komna
Bjarnarfell ofan Geysis
Hraunsnefsxl
Djadalshnkur
rsmerkurfer
Leialsingar :: Kilimanjaro

Kilimanjaro


Haraldur Örn var fararstjóri á Kilimanjaro í september 2007. Vegna mikils áhuga á ferðinni var ákveðið að bæta við aukaferð og fór hann því tvisvar á fjallið í sama mánuðinum. Hér á eftir fer lýsing á fyrri ferðinni.

Kilimanjaro er hæsta fjall Afríku og hæsta frístandandi fjall heims og eitt stærsta eldfjall heims. Þrátt fyrir að ekki sé um tæknilegt klifur að ræða má ekki vanmeta fjallið. Hæsti tindur fjallsins er í 5.895 metra hæð og er súrefnismagnið í andrúmsloftinu u.þ.b. helmingur af því sem það er við sjávarmál sem gerir það að verkum að öll líkamleg áreynsla verður erfið.

Flestir fá einhver einkenni fjallaveiki þegar farið er upp í svona mikla hæð en í langflestum tilfellum er þó eingöngu um væg einkenni að ræða. Væg einkenni fjallaveiki eru lystarleysi, svimi, ógleði og hausverkur. Það kemur þó fyrir að einhverjir fá alvarlegri einkenni og þá er eina ráðið að fara í minni hæð undir eins. Besta leiðin til að koma í veg fyrir fjallaveiki er að drekka mikið vatn og fara sér hægt upp fjallið. Með því að fara hægt upp hefur líkaminn betri tíma til hæðaraðlögunar.

Lagt var af stað í ferðina 1. september og var fyrsti áfangastaður Heathrow flugvöllur en þaðan var flogið með næturflugi til Naíróbí í Kenýa. Þegar komið var út úr flugstöðinni fékk hópurinn sína fyrstu upplifun af Afríku. Það er einhver sérstök lykt í Afríku og maður finnur fyrir einhvers konar stemningu.

Búnaðinum var hlaðið inn í rútu sem var merkilega góð miðað við fararkostina á staðnum og síðan var lagt af stað í langa ökuferð til þorpsins Moshi við Kilimanjaro sem handan landamæranna við Tanzaníu. Á leiðinni bar margt fyrir augu og var ökuferðin sérstakt ævintýri útaf fyrir sig.

Í Moshi gisti hópurinn á þokkalegu hóteli og var sameiginleg máltíð um kvöldið. Snemma daginn eftir var haldið af stað í gamalli rútu að upphafsstað göngunnar á Kilimanjaro. Áætlunin var að ganga upp á fjallið norðan megin eftir Rongai leiðinni og niður sunnan megin eftir Marangu leiðinni og fara þannig yfir fjallið. Þennan fyrsta dag var gangan róleg og mjög aflíðandi. Í fyrstu var gengið í gegnum akra en síðan tók frumskógurinn við. Á milli trjánna sást glitta í apa og allt í kring voru framandi plöntur. Fljótlega fór þó skógurinn að gisna eftir því sem lengra og hærra var gengið.

Að kvöldi var gist í Simba búðunum sem eru í 2.600 metra hæð. Mælt var með því að fólk gengi vel frá farangrinum því að dæmi eru um að þjófar laumist að tjöldum ferðalanga í myrkrinu og hirði lauslega muni.

Með okkur í för var fjöldi heimamanna sem báru vistir okkar upp fjallið. Einnig höfðum við innfædda leiðsögumenn og kokka sem elduðu mat fyrir okkur. Um nóttina skiptust heimamenn á að standa vörð við tjaldbúðirnar.

Daginn eftir var göngunni haldið áfram og nú varð gróðurinn stöðugt hrjóstrugari. Kilimanjaro er eldfjall og gengum við á gömlu hrauni. Minnti því landslagið stundum á íslenskt landslag þó að margt væri mjög frábrugðið. Þunna loftið fór nú að segja til sín og var því hægt á gönguhraðanum.

Í lok dags komum við í Third Cave búðirnar sem eru í 3.850 metra hæð eftir 6 kílómetra göngu og 1.250 metra hækkun. Þreyta og vægur hausverkur var farinn að gera vart við sig í hópnum enda er þetta mikil hæðarhækkun á einum degi í svo mikilli hæð.

Þriðji dagurinn á fjallinu var hvíldardagur til að gefa hópnum færi á að aðlagast þunna loftinu. Þó var farið í stutta göngu því að algert hreyfingarleysi er ekki af hinu góða. Hjálpa líkamanum að aðlagast er mikilvægt að drekka mikið vatn og spara kraftana.

Á fjórða degi var komið að því að ganga í efstu búðir á Rongai leiðinni sem nefnast Kibo hut og eru í 4.700 metra hæð. Þetta var um 4 kílómetra aflíðandi ganga en þrátt fyrir það tók hún verulega á mannskapinn og ljóst var að hæðin var farin að segja verulega til sín. Einhverjir fundu fyrir kveisu og kraftleysi. Allir kláruðu þó daginn án vandræða.

Eftir að í búðirnar var komið var komið að lokaundirbúningi fyrir toppadaginn en síðan var borðaður kvöldmatur snemma og farið í háttinn. Laust eftir miðnætti var risið á fætur eftir lítinn svefn. Safnast var saman í eldhústjaldinu og drukkið te og maulað á kexi. Allir voru spenntir fyrir lokaáfangann.

Úti var myrkur en stjörnubjart. Gengið var mjög rólega eftir vel troðnum stígum. Brattinn jókst jafnt og þétt. Allir fundu mikið fyrir áhrifum þunna loftsins. Mæði, hausverkur og ógleði gerði vart við sig hjá sumum en aðrir virtust þola súrefnisskortinn betur. Skref fyrir skref var pufast áfram í myrkrinu.

Rétt fyrir sólarupprás náði hópurinn upp á fjallsbrúnina þar sem nefnist Gilmans Point í 5.681 metra hæð. Hér voru þrír í hópnum svo illa haldnir af hæðarveiki að þeir tóku þá skynsamlegu ákvörðun að snúa við. Aðrir héldu áfram glímunni við síðustu 200 metrana. Þó að gangan frá Gilmans Point á tindinn sé í sjálfu sér ekki löng þá tók hún mikið á. Með þrautseigju náðist takmarkið að lokum og Uhuru sem er heitið á hæsta tindi Kilimanjaro var náð en hann er 5.895 metra hár. Þetta var mikill sigur og ánægjan leyndi sér ekki.

Eftir stutt stopp á tindinum var haldið niður. Þreytan var mikil enda mikið erfiði að baki. Gangan var þó ekki búin þegar komið var aftur niður í Kibo Hut því að þá voru tjöldin tekin upp og haldið rakleiðis niður Marangu leiðina, alveg niður í Horombo Hut sem er í 3.700 metra hæð. Það var gott að vera komin í súrefnisríkara andrúmsloft með tindinn að baki.

Sjötta og síðasta dag göngunnar var gengið síðasta spölinn niður fjallið og út úr þjóðgarðinum. Heimamennirnir sem fylgt höfðu okkur alla ferðina, borið farangurinn hópsins og eldað matinn voru kvaddir og leystir út með þjórfé eins og venja er á þessum slóðum. Síðan var haldið aftur á hótel í Moshi.

Daginn eftir tók við safari ferð um Amboseli þjóðgarðinn en hann liggur norðvestan megin við fjallið, innan landamæra Kenýa. Amboseli garðurinn er 3260 km2m að flatarmáli og 3 vinsælasti garðurinn í Kenýa. Garðurinn tilheyrir sigdalnum mikla og var upphaflega stofnaður sem þjóðgarður árið 1906 og friðlýstur árið 1974. Þó garðurinn sé ekki stór er þar að finna yfir 50 tegundir spendýra og ógrynni af fuglum. Amboseli er talinn einn af bestu stöðum í heimi til að skoða fíla og er þar einnig magnað útsýni yfir Kilimanjaro.

+ Myndir


Hópurinn lentur í Nairobi og rútan hlaðin fyrir aksturinn að Kilimanjaro.  Við vegkanntinn er margt framandi að sjá. Hér er ungur drengur með lifandi fugl til sölu.  Hópurinn við hótelið í Moshi.  Hér er stoltur kjötkaupmaður að sýna varninginn sinn.  Í Afríku er allt borið á höfðinu.  Fyrstu tjaldbúðirnar á Kilimanjaro.  Burðarmenn sáu um að koma farangrinum upp fjallið.  Hver er svona myndarlegur?  Hópurinn á öðrum degi göngunnar.  Gróðurinn er víða fallegur og plöntuúrvalið breytist stöðugt eftir því sem ofar er farið.  Annar náttstaður á fjallinu í 3.850 metra hæð. Fyrir ofan sést til Kilimanjaro tindsins.  Á leiðinni í efstu búðir. Landslagið var orðið mjög hrjóstrugt.  Einstaka plöntur voru á stangli þrátt fyrir að komið sé yfir 4.000 metra hæð.  Haraldur Örn með innfæddum leiðsögumönnum hópsins.  Þunna loftið fór að segja til sín.  Hópurinn að nálgast efstu búðir.  Hér sést brekkan upp að Gilmans Point. Þessi brekka var klifin í myrkri næstu nótt.  Hér er hópurinn kominn í efstu búðir sem nefnast Kibo Hut og eru í 4.750 metra hæð.  Á toppadegi. Eftir að hafa gengið í myrkri frá miðnætti var mikill áfangi að ná upp á Gilmans Point og sjá sólarupprásina.  Á Gilmans Point.  Síðasti hlutinn tók á enda loftþynningin orðin mikil. Hér sést í leyfarnar af jöklinum sem þakti allt þetta svæði áðurfyrr.  Horft til baka til Mawenzi tinds sem er litli bróðir hæsta tindsins sem nefnist Kibo.  Síðustu skrefin á Uhuru hæsta tind Kilimanjaro 5.895m.  Haraldur Örn á tindi Kilimanjaro.  Heimamennirnir sem voru með okkur í ferðinni. Hér eru leiðsögumenn, burðarmenn og kokkar.  Eftir fjallgönguna var farið í safari. Þetta er ómissandi hluti af Afríkuferð.  Hvar er Tarzan?  Fíll í stuði.  Einn KR-ingur frá Afríku.  Kilimanjaro og Mawenzi út um flugvélagluggann.  
Skilabo
Tlfri
Hæð5.895 metrar
LandTanzanía
Dagar á fjallinu6 dagar
Toppadagur7. sept. 2007
milli
Fjallaflagi ehf
milli
Kt. 560909-1010
milli
fjallafelagid@fjallafelagid.is
milli
milli milli