Fjallafélagiđ Skráning á póstlista
Viđ erum á facebook!
Forsíđa Ferđir Myndir Leiđalýsingar Haraldur Örn Fjallafélagiđ
Fjallafélagiđ
Um okkur
Skilmálar
Fréttir
Búnađarlistar
Jöklaferđ
Almenn ferđ
Fjallafélagiđ :: Fréttir :: Rjómaferđ á Eyjafjallajökul

Rjómaferđ á Eyjafjallajökul


Vaskur hópur Fjallafélaga vaknaði í bítið laugardaginn 26. apríl.  Framundan var ganga á Eyjafjallajökul, ein af skemmtilegri jöklaleiðum landsins.  Til þess að gera gönguna sem allra besta var búið að ákveða að ganga yfir jökulinn, þ.e. frá Grýtutindi í norðri (sem verður á vegi manns á leiðinni inn í Þórsmörk), upp á hæstu tinda jökulsins og þaðan niður af Seljavöllum.  Hópurinn lagði af stað í rútu frá Reykjavík kl. 7 og voru allir ferðalangarnir sammála um að þetta ferðafyrirkomulag er mun hentugra en að vera á einkabílum sem flækir málin og útheimtir tímafrekan flutning á bílum á milli staða.

Gangan hófst kl. 10 í blíðskaparveðri, bjart og hlýtt.  Strax í fyrstu brekkunni þurfti göngufólkið að kasta af sér fötunum enda bratt upp snjólausan hrygginn og sólin byrjuð að baka mannskapinn.  Eftir að á snjó var komið var Skerjunum fylgt (norðan megin) langleiðina upp jökulinn.  Útsýnið var stórkostlegt með Tindfjöll, Heklu, Vestmannaeyjar og fleira og fleira sem blasti við.  Í fjarska mátti sjá Langjökul, Jarlhettur, Friðland að fjallabaki og meira að segja Hengilinn...slíkt var útsýnið!   

Eftir tæplega 6 klst göngu var komið upp á Goðastein og opnaðist þá mögnuð sýn yfir gosöskjuna, Guðnastein, Hámund og fleiri víðerni.  Eftir útsýnisstopp þar var haldið áfram og þræddu línurnar fimm brúnina á gosöskjunni þar sem gufan steig upp frá gígnum sem þarna fór hamförum fyrir réttum 4 árum.  Gengið var í átt að Guðnastein og loks var á hæsta tindinn komið, Hámund, en hann er skráður 1666 metrar yfir sjávarmáli.  Hann mældist 1636 metrar skv siglingatækjum fararstjóra.  Þegar þarna er komið við sögu var hópurinn búinn að ganga í 7 klst og 15 mínútur og hækkað sig um 1557 metra. 

Það var einstök stemmning á hátindinum.  Sólin skein og brosin ljómuðu á andlitum ferðalanga.  Grétar fararstjóri hafði borið með sér læri af lambi sem gekk eitt sinn frjálst um Tindfjöllin, í næsta nágrenni.  Hér var á ferðinni dýrindis reykt Tindfjallalamb frá SS og tóku ferðalangar því vel enda gott á þessum tímapunkti að fá eitthvað annað en flatkökur og Snickers!  Lærið bragðaðist afskaplega vel, gott protein, salt og orka.  Eftir myndatökur og aðra gleði hélt hópurinn af stað og nú var förinni heitið beinustu leið niður á Seljavelli.  Þessi leið tók rúmlega 2 klst. Hópurinn kláraði gönguna (í heild 19 km) á 10 klst og 15 til 30 mínútum.  Það er yfirleitt þannig að þegar veðrið er svona glæsilegt, þá taka göngurnar lengri tíma!

Það voru ekki amalegar mótttökur sem biðu ferðalanganna niðri við Seljavelli.  Hermann Árnason, einn af Fjallafélögum, var búinn að hita ljúffenga SS gúllassúpu sem var kærkomin hressing ásamt fersku brauði og öllu tilheyrandi.  Betri mat er varla hægt að hugsa sér eftir langan dag á göngu.  Sælutilfinning fór um hópinn eftir þennan ævintýradag þegar sest var að snæðingi og fólk svalaði þorstanum á einhverju ögn sterkara en Gatorade!  Grétar bætti um betur og bauð upp á meira af reyktu lambi, í þetta sinn heimareykt úr sveitinni. 

Niðurstaðan: Algjör rjómaferð þar sem veðrið, færið og útsýnið var eins gott og hægt er að hugsa sér! 

Myndir eru á myndasíðum

or   Sjá allar fréttir
Skilabođ
milli
Fjallafélagiđ ehf
milli
Kt. 560909-1010
milli
fjallafelagid@fjallafelagid.is
milli
milli milli