Fjallafélagiđ Skráning á póstlista
Viđ erum á facebook!
Forsíđa Ferđir Myndir Leiđalýsingar Haraldur Örn Fjallafélagiđ
Fjallafélagiđ
Um okkur
Skilmálar
Fréttir
Búnađarlistar
Jöklaferđ
Almenn ferđ
Fjallafélagiđ :: Fréttir :: Baula í vetrarham

Baula í vetrarham


Laugardagurinn 1. mars, sjálfur bjórdagurinn, var valin fyrir eina mest spennandi göngu Fjallafélagsins í ár.  Þennan dag gerðu 48 Fjallafélagar atlögu að Baulu í Borgarfirði.  Þetta er glæsilegt fjall sem blasir við vegfarendum sem aka um þjóðveginn um Norðurárdal, rís hátt og formfagurt yfir önnur fjöll með sína bröttu hlíðar og hvassan topp.  Hæð fjallsins er 934 metrar yfir sjávarmáli.  

Gangan hófst við brúna yfir Bjarnardalsá, rétt við fætur Bröttubrekku.  Rúmlega 2 km ganga er að fjallinu sjálfu með svolítilli hækkun en heildarhækkun í þessari göngu er rétt um 800 metrar frá þessum upphafsreit.  Nestis- og gaddastopp var tekið við fjallsrætur þar sem hópurinn undirbjó uppgönguna sjálfa.  Framundan var gangan sjálf upp hlíðar Baulu sem eru nokkuð brattar og grýttar á köflum.  Færið var hagstætt í byrjun þar sem auðvelt var að marka spor í hæfilega mjúkan snjóinn.  Þarna er þó stórgrýtt og stundum mynduðust holur inn á milli steinanna sem næstu menn þurftu að sneiða hjá.  Það er þó mál manna að auðveldara sé að ganga um þetta stórgrýtta landslag þegar snjór er yfir öllu. 

Um miðbik fjallsins harðnaði færið þannig að fararstjórar þurftu að nota ísaxir og höggvandi fótspor til þess að mynda viðunandi spor fyrir hópinn.  Þetta tafði nokkuð för en allir sýndu þolinmæði enda veðuraðstæður nokkuð góðar á þessum tímapunkti.  Færið batnaði aftur fljótlega, snjórinn passlega mjúkur og greiðlega gekk að marka spor upp hlíðar fjallsins.  

Þegar ofar dró minnkaði vindurinn og blár himininn kom meira og meira í ljós.  Fólk tók andköf þegar komið var upp á fjallsbrúnina þar sem  stórkostlegt útsýnið opnaðist til austurs og norðurs.  Við fætur var fátt annað en þverhnípt austurhlíð fjallsins.  Skynsamlegt að halda sig mátulega fjarri brúninni þarna.  Við tók um 100 metra ganga eftir hrygg upp á sjálfan toppinn.  Það var mögnuð tilfinning að feta sig eftir hryggnum með þverhnípið öðru megin og koma svo á sjálfan toppinn.  Og viti menn: þar var logn!!  Stemmningin var ólýsanleg.  Þarna var hópurinn samankominn á þessum glæsilega tindi eftir krefjandi göngu og naut óhindraðs útsýnis til allra átta.  Glampandi sól og fegurð!   Niðurleiðin gekk vel að mestu leyti en sum staðar var erfitt að fóta sig þar sem slóðin var orðin mjög niðurtroðin.  Snjórinn var ekki ólíkur hvítum sykri sem gaf eftir og veltist þegar fæti var stigið niður og þurfti fólk að gæta ítrustu varúðar.  Fararstjórar fundu aðra og betri leið niður til þess að sneiða hjá harðfenninu sem varð á vegi hópsins á uppleiðinni. 

Siglingatæki leiðsögumanna sýndu 953 metra hæð á toppnum sem er nokkuð hærra en gefið er upp á Atlaskorti (934 m) en eins og stundum áður eru ekki öll GPS tækin sammála.  Hækkunin á fjallið sjálft frá gaddastoppinu var sléttir 500 metrar sem er vel af sér vikið!  Gangan tók um það bil 5 klst og 35 mínútur sem er nokkuð lengra en gert var ráð fyrir enda þurfti hópurinn að fara rólega yfir á köflum.  Það var mikil upplifun í alla staði að koma á topp Baulu.  Þeir sem sigra hana ERU lengra komnir! 

Myndir eru á myndasíðum

or   Sjá allar fréttir
Skilabođ
milli
Fjallafélagiđ ehf
milli
Kt. 560909-1010
milli
fjallafelagid@fjallafelagid.is
milli
milli milli