Rúmlega 30 Fjallafélagar örkuðu á Kálfstinda laugardaginn 4. maí.
Kálfstindar eru fjallgarður sem liggur austan þjóðgarðsins á Þingvöllum en þeir sjást vel frá veginum yfir Lyngdalsheiði. Af fjórum tindum, sem ekki bera eiginlegt nafn utan samnefnarans, er algengast að ganga á þann sem liggur norðan við Flosaskarð (stundum nefndur Flosatindur) en einnig þann innsta sem er jafnframt sá hæsti, 877 metrar yfir sjávarmáli.
Hópurinn gekk frá malarnámunum á Laugarvatnsvöllum, framhjá Flosaskarði og Þverfelli og áfram inn í krók þar sem hið mikla Kálfsgil varð á vegi hans. Þar var tekið stutt stopp áður en lagt var á brattann.
Rigningarúði breyttist fljótlega í slyddu og svo sjókomu eftir að komið var í 500 m. hæð en vindhraði var lítill og veður ágætt. Tekin var stefna á innsta (hæsta) tindinn. Eftir um 3 klst. göngu hafði vindhraðinn aukist talsvert og snjókoman orðin þéttari. Skyggnið spilltist samfara því og ákvað hópurinn að láta staðar numið enda varla um gönguaðstæður að ræða lengur og ljóst að ekki fengist nokkurt útsýni af tindinum sem var í innan við eins kílómetra fjarlægð.
Þrátt fyrir þetta vantaði ekki góða stemmningu í hópinn og voru teknar léttar balletæfingar í hríðinni svona til þess halda öllum samstilltum. Þetta var mjög góð æfing fyrir hópinn enda ekki nema 3 vikur í stóra takmarkið, sjálfan Hvannadalshnúk. Svona göngur þjálfa mannskapinn í að athafna sig í krefjandi aðstæðum og litlu skyggni. Það reyndi talsvert á búnaðinn sem blotnaði mikið. Alls voru gengnir 12 km þennan daginn á 5 klukkustundum.