FjallafÚlagi­ Skrßning ß pˇstlista
Vi­ erum ß facebook!
ForsÝ­a Fer­ir Myndir Lei­alřsingar Haraldur Írn FjallafÚlagi­
Fyrri lei­angrar
Everest
Nor­urpˇllinn
Su­urpˇllinn
Haraldur Írn :: Fyrri lei­angrar :: Everest

Everest


EFTIR HARALD ÖRN ÓLAFSSON

Gangan upp í grunnbúðir

Gangan upp í grunnbúðir Everest hófst í þorpinu Lukla (2.840 m.) eftir stutt flug frá Kathmandu, höfuðborg Nepal. Leiðin liggur bröttum fjallshlíðum með viðkomu í nokkrum þorpum. Þetta eru heimkynni sherpanna sem eru frægir fyrir dugnað við að bera birgðir upp Himalaya fjöllin. Þeir hljóta æfingu frá unga aldri því hér eru engir vegir. Allt sem þarf að flytja á þessum slóðum er því borið á bakinu.

Ég var í hópi níu klifrara á vegum fyrirtækisins Adventure Consultants sem allir stefndu á að ná tindi Everest. Þetta var blandaður hópur og fæstir þekktust fyrir ferðina. Ég var eini Íslendingurinn en hinir voru frá Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi og Ástralíu.

Á öðrum degi komum við í þorpið Namche Bazaar (3.440 m.) sem er nokkurs konar höfuðstaður sherpanna. Hér fengum við hvíldardag til að aðlagast betur þunna loftinu. Mikilvægt er að hækka sig ekki of hratt til að forðast háfjallaveiki. Afleiðingar hennar blöstu við okkur strax á þessum fyrstu dögum. Veikir ferðamenn gengu reikulum skrefum niður á við í leit að súrefnisríkara andrúmslofti og sumir voru bornir niður, hálf meðvitundarlausir. Á fjórða degi börðum við Everest augum í fyrsta sinn. Það var stórfengleg sjón að sjá vindskafinn tindinn og strókinn af honum langar leiðir. Ég var hálf orðlaus. Þetta var stórt fjall!

Í þorpinu Tengboche (3.860 m.) gafst okkur tækifæri á að skoða Buddha-klaustur og vera viðstödd bænagjörð munkanna. Við fengum einnig blessum frá Lama-munki sem bað fyrir góðu gengi leiðangursins á fjallinu. Sherparnir þekkja hætturnar sem fylgja fjallgöngum á þessu svæði og leggja mikla áherslu á slíkar trúarathafnir. Mér fannst gott að vita af þessum góðu bænum heimamanna og líkaði því vel við þessar athafnir. Við héldum áfram upp dalinn í gegnum þorpin Pheriche, Loboche og Gorak Shep og sífellt varð landslagið hrjóstrugra. Við nálguðumst nú grunnbúðir Everest en áður en þangað var haldið gengum við á tindinn Kala Patar (5.540m) en þaðan er ægifagurt útsýni yfir til fjallarisanna Everest, Lhotse og Nuptse. Loks eftir átta daga göngu komum við í grunnbúðir Everest sem eru í 5.400 metra hæð. Búðirnar eru staðsettar á grýttum Khumbu jöklinum. Fyrir ofan gnæfir hrikalegur Khumbu skriðjökullinn. Það var ekki laust við að það færi um mann við tilhugsunina um allar ferðirnar sem maður ætti eftir að fara um þetta hrikalega ísfall.

Grunnbúðir

Í grunnbúðum hafði hver leiðangursmaður sitt svefntjald en auk þess sem leiðangurinn hafði yfir að ráða stóru matartjaldi, eldhústjaldi, fjarskiptatjaldi og sjúkratjaldi þar sem læknir leiðangursins hafði aðstöðu. Sherparnir okkar sváfu auk þess saman í nokkrum tjöldum og höfðu sérstaka aðstöðu til að elda og matast. Búðirnar okkar voru því stórar og aðstaðan góð enda vó allur búnaður leiðangursins um 7.000 kíló. Auk okkar voru þarna fjölmargir aðrir leiðangrar. Einstaka sinnum var farið í heimsóknir milli búða og í einni slíkri heimsókn hitti ég til dæmis Peter Hillary sem er sonur Edmunds Hillary sem kleif Everest fyrstur manna ásamt Tenzing Norgay 1953. Hann var að klífa fjallið í fótspor föður síns og gera um leið kvikmynd í tilefni af 50 ára afmæli fyrstu uppgöngunnar sem var árið eftir. Leiðangrarnir héldu sig þó almennt hver fyrir sig. Ákveðin spenna var í samskiptum milli sumra leiðangra og sumir þeirra voru fremur óvinsælir á fjallinu. Þóttu leiðangursmenn sumra leiðangra ekki haga sér drengilega í samskiptum við aðra klifrara.

Leiðangursmenn

Leiðangurinn var skipulagður af fyrirtækinu Adventure Consultants. Fyrirtækið er líklega frægast fyrir að vera í hringiðunni í bók Jon Krakauer, Into Thin Air. Á þeim tíma var Rob Hall eigandi fyrirtækisins en hann lést á fjallinu árið 1996 þegar frásögn bókarinnar átti sér stað.

Leiðangursstjórar voru þeir Bill Crouse frá Bandaríkjunum og David Hiddleston frá Nýja Sjálandi en báðir höfðu þeir klifið Everest áður. Aðrir leiðangursmenn voru auk mín John Taske frá Ástralíu en hann kemur fyrir í bókinni Into Thin Air, Andrew Maluish frá Ástralíu sem var vinur John, Tom Burch lögfræðingur einstaklega öflugur fjallamaður og var hann tjaldfélagi minn fyrir ofan grunnbúðir, Alan Arnette sem var einstaklega viðfelldinn og með mikinn húmor en hann starfaði sem yfirmaður í tölvufyrirtæki, Robert Plotke verkfræðingur og Ellen Miller sem jafnframt var eiginkona Bill leiðangursstjóra og hafði klifið norðurhlíð Everest árið áður. Þau siðarnefndu voru öll frá Bandaríkjunum. Við þennan hóp bættist Guy Cotter sem var nýr eigandi Adventure Consultants en hann er frá Nýja-Sjálandi. Til viðbótar höfðum við leiðangurslækni og þá er ótalinn sexmanna hópur sem gekk með okkur upp í grunnbúðir og dvaldi þar í mislangan tíma.

Sherpar leiðangursins voru einstaklega öflugir. Ang Tshering Sherpa stýrði grunnbúðunum af einstakri snilld og var yfirmaður allra sherpanna (Expedition Sirdar). Hæstráðandi meðal klifursherpanna (Climbing Sirdar) var engin annar en Ang Dorjee en hann kemur mikið fyrir í Into Thin Air og hafði áður klifið Everest sjö sinnum. Að auki höfðum við sex klifur-sherpa, kokk, sherpakokk og tvo aðstoðarkokka í grunnbúðum auk kokks og aðstoðarkokk fyrir 2. búðir.

Þetta var því mjög stór hópur samsettur af ólíkum einstaklingum með ólíkan bakgrunn. Það sem sameinaði okkur fjallgöngumennina var markmiðið, tindur Everest. Andinn í hópnum var mjög góður og við vorum farin að kynnast vel. Þegar leið á var þó ekki laust við að það kæmi upp ákveðin togstreita milli manna eins og algengt er í svona ferðum.

Aðlögun

 Eftir að upp í grunnbúðir var komið hófst langt aðlögunarferli. Það fólst í endurteknum ferðum upp í hlíðar Everest og aftur niður í grunnbúðir. Með hverri aðlögunarferð fórum við hærra upp fjallið og gistum fleiri nætur á fjallinu. Á milli þeirra var áhersla lögð á að hvílast vel og safna kröftum. Tilgangurinn með þessu er að venja líkamann við þessa gríðarmiklu hæð sem við vorum komin í og undirbúa okkur fyrir átökin við tindinn. Mér leið betur með hverri aðlögunarferðinni og kraftarnir jukust sem sagði mér að ég væri að aðlagast eðlilega þunna loftinu. Ekki svo að skilja að manni líði sérstaklega vel yfir 6.000 metra hæð en ég var samt sem áður að styrkjast.

 

Ég fylgdist stöðugt með heilsufari mínu. Ég hafði lent í að fá lungnakvef á Aconcagua, sem er hæsta fjall Suður-Ameríku og vissi að ef það endurtæki sig á versta tíma væri úti um möguleika mína á að ná tindi Everest. Ég gerði því allt sem ég gat til að halda mér hraustum. Ég borðaði vel, drakk mikinn vökva og hvíldi mig á milli aðlögunarferða. Þrátt fyrir það var ég kominn með þurran hósta sem ágerðist stöðugt. Hann var líklega afleiðing af köldu og þurru loftslaginu í þessari hæð. Þegar leið á var hóstinn orðinn svo mikill að rifbeinin voru farin að losna og því fylgdi skerandi sársauki við hvert hóstakast.

Ég var bæði spenntur og kvíðinn að takast á við Khumbu skriðjökulinn í fyrsta sinn. Þetta er frægasti og hættulegasti farartálminn á leiðinni á tindinn. Ísfallið er bratt og á stöðugri hreyfingu. Ísblokkirnar hanga hver yfir aðra og geta hrunið á hverri stundu. Jökullinn er alsettur gríðar breiðum og djúpum sprungum sem brúaðar eru með álstigum. Svo langt er á milli barmanna að oftar en ekki þarf að binda marga stiga saman svo þeir nái yfir hyldýpið. Að ganga yfir þessa stiga í klunnalegum skóm og með mannbrodda undir fótum var ákveðin kúnst en ég náði strax tækninni við þetta. Til að gæta alls öryggis voru einnig línur meðfram stigunum sem við festum okkur við. Það kom sér vel því að fyrir kom að menn hrösuðu og féllu til annarrar hvorrar hliðar. Þá dingluðu þeir í öryggislínunni með svart hyldýpið fyrir neðan.

Fyrsta stóra aðlögunarferðin hófst 14. apríl. Við lögðum af stað í eldsnemma í myrkri til móts við ísfallið. Ég var eitthvað slappur og kastaði upp eftir stutta göngu. Ég ákvað því að snúa til grunnbúða og varð þannig viðskila við hópinn. Morguninn eftir var ég orðinn hress og lagði af stað upp jökulinn. Mér gekk vel og hitti félaga mína snemma dags í 1. búðum en þær búðir eru rétt fyrir ofan ísfallið. Við gistum í 1. búðum um nóttina og daginn eftir var haldið áfram inn Vesturdal. Þarna blasti við stórfenglegt útsýni. Fjallarisarnir Everest, Lhotse og Nuptse gnæfðu hátt til himins beint fyrir ofan okkur. Leiðin inn Vesturdal var nokkuð sprungin en að öðru leyti nokkuð greiðfær og aflíðandi. Eftir nokkurra tíma göngu náðum við í 2. búðir sem voru í 6.400 metra hæð undir hömróttri Suð-Vesturhlíð Everest. Þarna gistum við í tvær nætur en héldum síðan niður í grunnbúðir á ný til að hvílast og safna kröfum.

Önnur aðlögunarferðin hófst 22. apríl. Við byrjuðum á að fara yfir ísfallið. Mér leið aldrei vel að fara undir ísbjörgin. Ég vissi að þau gætu hrunið á hverri stundu. Það var því alltaf léttir að komast upp í 1. búðir. Þar bundum við okkur saman í línu. Við vorum þrír saman, ég fremstur, Alan í miðjunni og Rob aftastur. Það var mikið um sprungur á leiðinni sem við þurftum að klofa yfir. Stuttu eftir að ég hafði stigið yfir eina sprunguna fann ég kippast í línuna. Ég leit við og trúði varla mínum eigin augum. Alan var horfinn, hann hafði fallið í sprunguna. Ég hélt línunni strekktri og bað Rob um að fara varlega að brúninni og kanna ástandið á Alan. Hann reyndist ekki hafa farið langt niður í sprunguna og með smá hjálp komst hann uppá brúnina. Hann var ómeiddur en það var greinilegt að þetta var töluvert áfall fyrir hann. Við héldum göngunni áfram og komumst klakklaust upp í 2. búðir. Alan var enn í töluverðu áfalli og það var ljóst að sjálfstraustið hafði beðið nokkra hnekki. Þetta rjátlaðist þó smám saman af honum. Við dvöldum samtals 6 daga í 2. búðum. Við fórum tvær ferðir uppí Lhotse hlíðina sem er mjög brött og ísuð. Á köflum er brött brekkan eins og gler. Síðasta daginn í 2. búðum skall á mikill stormur. Vinstyrkurinn var gríðarlegur og við áttum í mesta basli með að halda tjöldunum okkar uppistandandi. Tvö af tjöldunum okkar þoldu ekki álagið og varð að fella þau. Við sáum tjöld annarra leiðangra splundrast í veðurofsanum. Daginn eftir héldum við niður í grunnbúðir.

Nú tók aftur við hvíld og stund milli stríða en þá bárust okkur váleg tíðindi. Fyrsta dauðsfallið hafði átt sér stað á Everest þetta árið. Breskur fjallamaður hafði hrasað í Lhotse hlíðinni og hrapað til bana og endað í sprungu. Ég var undirbúinn undir slík tíðindi þar sem dauðsföll verða á fjallinu á hverju ári. En þrátt fyrir það var þetta sláandi fréttir sem höfðu töluverð áhrif á okkur.

Þriðja og síðasta aðlögunarferðin hófst 1. maí. Við gengum á einum degi uppí 2. búðir og hvíldum svo þar einn dag. Síðan var haldið uppí Lhotse hlíðina. Við klifum uppí 3. búðir sem eru í 7.300 metra hæð. Þarna eru gerðar mjóar syllur í snarbratta hlíðina. Tjöldunum er tyllt á þessar syllur og þau skrúfuð föst við ísinn. Við gistum um nóttina í 3. búðum og skyldi það vera prófsteinn á það hvort við værum nægjanlega aðlöguð þunna loftinu til að takast á við tindinn. Algengt er að mönnum líði illa í þessari hæð og eigi erfitt með að sofa. Mér leið hins vegar mjög vel og gaf það mér góð fyrirheit um framhaldið. Daginn eftir héldum við alla leið niður í grunnbúðir. Aðlögunartímabilinu var lokið og við tók undirbúningur fyrir atlöguna við tindinn.

Úr grunnbúðum í Suðurskarð

Næstu daga var töluverð spenna í loftinu. Flestir leiðangrarnir voru tilbúnir til að takast á við tindinn. Spurning var bara hvenær væri rétti tíminn að leggja af stað. Tindurinn er flesta daga vindblásinn af sterkum háloftavindum sem gera uppgöngu ómögulega. Það skiptir því öllu máli að hitta á rétta daginn þegar vindurinn er í lágmarki. Menn skoðuðu langtímaspár daglega og veltu vöngum yfir útlitinu. Þar sem fjöldi leiðangra var mikill þurfti líka að taka með í reikninginn hvað allir hinir ætluðu að gera. Menn vildu helst ekki vera allir á sama tíma því mikill fjöldi klifrara gæti skapast vandræði á hættulegum stöðum á fjallinu.

Þegar hér var komið höfðu John og Andy ákveðið að hverfa frá og halda heim á leið. Við vorum því sjö eftir sem stefndum á tindinn. En þá fékk ég ánægjulega heimsókn. Ólafur Örn faðir minn og Steinar Þór Sveinsson vinur minn komu upp í grunnbúðir til að styðja mig í lokaundirbúningnum og fylgjast með toppagöngunni. Það var góður styrkur í að fá til liðs við sig og geta rætt um framhaldið við nána vini.

Loks fengum við veðurspánna í hendur sem við vorum að bíða eftir. Lagt var af stað upp ísfallið í síðasta sinn þann 12. maí. Ferðin upp ísfallið og upp Vesturdal gekk vel en það var ljóst að aðrir leiðangrar voru að stefna á sama toppadag því margir klifrarar voru á ferðinni. Daginn eftir var hvíldardagur í 2. búðum. Veðurspáin var enn góð og því var tekin lokaákvörðun um að gera atlögu við tindinn 16. maí. Ég vissi að nú yrði ekki aftur snúið og ef þessi tilraun myndi misheppnast þá væri ólíklegt að við gætum reynt aftur við tindinn. Daginn eftir héldum við upp Lhotse-hlíðina. Í brattri og ísaðri brekkunni voru öryggislínur sem við festum okkur við. Þær voru mjóar og í misjöfnu ástandi auk þess sem festingarnar voru á köflum mjög ótraustvekjandi. Mér leið því ekki sérlega vel þegar margir klifrarar voru komnir á eina línu og notuðu hana til að toga sig upp. Við náðum upp í 3. búðir án vandræða. Það var töluvert skýjafar á fjallinu og ég velti fyrir mér hvort veðurspáin myndi halda. Við áttum allt undir því að hún gengi eftir. Mér gekk illa að sofna um kvöldið. Við notuðum súrefnisbúnaðinn í fyrsta skipti. Við vorum þrír saman í þröngu tjaldi og með súrefnisgrímuna á andlitinu fékk ég köfnunartilfinningu. Þegar tími var kominn til að fara á fætur hafði ég ekki náð að festa svefn og fann því fyrir þreytu.

 Nú tók við klifur upp efri hluti Lhotse-hlíðar og upp í Suðurskarð. Ég fór í dúnsamfestinginn og notaði súrefnisbúnaðinn í fyrsta sinn á göngu. Ég var með súrefniskút sem dugði í 6 tíma og á þeim tíma varð ég að ná uppí Suðurskarð. Ég fann fyrir köfnunartilfinningu við að nota súrefnisbúnaðinn og langaði mest að rífa grímuna af mér. Ég stillti mig þó um það og einbeitti mér að því að venjast búnaðinum. Ég var einnig í vandræðum með móðu á sólgleraugunum mínum og ísmyndun í súrefnisslöngunni. Með smá lagni náði ég þó að finna lausnir á þessum byrjunarerfiðleikum. Eftir nokkuð klifur upp brattar brekkur kom ég að Gula-klettabeltinu (e. Yellow band). Það var auðvelt að komast upp klettabeltið. Hér reyndi ég að borða en hafði litla lyst, tókst aðeins að kreista smáræði af orkugeli upp í mig. Ég leit niður og sá Tom langt fyrir neðan. Það kom mér á óvart að hann væri ekki fremstur í okkar hópi eins og hann var vanur. Ég fékk á tilfinninguna að það væri ekki allt í lagi hjá honum.

 

Nú tók við Genfar-röðull (e. Geniva spur) og lá leiðin upp snarbratt klettahaft sem tók töluvert á í öllum súrefnisskortinum. Það héngu línudræsur utan í klettinum og voru þær allar flæktar saman. Það var ekki um annað að ræða en að velja eina af línunum og vega sig upp á henni í von um að festingarnar héldu. Þegar upp á Genfar-röðulinn var komið var stutt eftir í Suðurskarð.

Ég náði í Suðurskarð eftir 5 tíma göngu frá 3. búðum. Bill, Dave og Ellen voru nýkomin í tjaldbúðirnar en ekkert bólaði á Tom, Alan og Rob. Ég skrúfaði fyrir súrefnið og kannaði þrýstinginn og sá að ég átti ekki mikið súrefni eftir. Ég var þess vegna nokkuð áhyggjufullur yfir Tom, Alan og Rob sem að voru á eftir mér. Það var enginn til að reka lestina og hjálpa þeim og þeir voru ekki með talstöðvar. Bill og Dave töluðu um að Rob væri mjög illa haldinn. Það kom því öllum á óvart þegar Rob birtist og gekk inn í búðirnar og virtist nokkuð hress. Hvernig gat staðið á því að Rob var langt á undan Tom og Alan? Það var eitthvað mjög undarlegt við þetta. Áhyggjur mínar af Tom og Alan fóru mjög vaxandi og ég benti Bill og Dave á að súrefnið hlyti að fara að klárast hjá Tom og Alan og benti þeim á hversu lágt kúturinn minn var kominn þegar ég kom upp í skarðið og nú var nokkur tími liðinn síðan ég kom upp. Þegar ég hafði nefnt þetta við þá tvisvar sinnum ákváðu þeir að senda tvo sherpa niður með súrefniskúta til aðstoðar. Ég fór inn í tjald og einbeitti mér að því að drekka vatn og hvílast. Út um tjaldopið blöstu brattar brekkurnar við og efst mátti sjá Suðurtind.

Eftir þó nokkra stund kom Alan í búðirnar og virtist vera mjög þrekaður. Enn var Tom ókominn og það varð mér æ stærri ráðgáta hvað væri að tefja hann enda hafði hann verið einn öflugasti klifrarinn í hópnum frá upphafi ferðar. Loksins kom Tom inn í búðirnar nær skríðandi með stuðningi sherpa en bakpokann hafði hann skilið eftir. Hann lá lengi á fjórum fótum og virtist örmagna. Þegar farið var að kanna málið kom í ljós að hann var með nær fullan súrefniskút. Hugsun manna var ekki mjög skýr en ég gerði mér samt grein fyrir að hann var með bilað tæki sem gæfi ekki nema mjög lítið súrefni frá sér. Tom var settur inn í tjaldi með Alan, Ellen og Bill. Ég hafði ekki náð neinu sambandi við Tom, hann hafði ekki verið í ástandi til að tala við hann. Eftir að hann hafði verið inni í tjaldi í nokkra stund og hvílst fór ég yfir til hans til að spjalla við hann. Hann var mjög aumkunarverður að sjá og hálf grátandi. Gangan upp í Suðurskarð með biluð súrefnistæki hafði reynst honum mikil þrekraun. Ég reyndi að hughreysta hann og segja að hann yrði orðinn sterkur í fyrramálið en það mátti heyra á honum að hann gerði sér engar vonir um að komast á tindinn. Það var orðið skýjað og ég velti fyrir mér hvort við fengjum heiðskýrt um nóttina. Eftir að hafa borðað eitthvað smáræði lagðist ég á dýnuna mína og reyndi að hvílast. Ég náði ekki að sofna.

Tindurinn

Andrúmsloftið var rafmagnað þegar ég skreið úr svefnpokanum mínum í Suðurskarði til að takast á við tind Everest. Það var þröngt í tjaldinu og lítið þurfti til að valda pirringi milli manna þegar við bisuðu við að taka okkur til í þykkum dúnfatnaðinum. Ég hafði ekki sofið frekar en nóttina áður, hafði átt erfitt með andardrátt undir grímunni. Í 8.000 metra hæð er súrefni í andrúmsloftinu aðeins 1/3 af því sem hann er við sjávarmál. Allar hreyfingar verða hægar og hugsunin er einnig mjög hæg. Fyrir utan tjaldið var niðamyrkur en það mótaði samt dauflega fyrir tindinum hátt fyrir ofan okkur. Hæsta fjall heims beið okkar. Ég sá að einhverjir klifrarar voru þegar lagðir af stað. Ljósin siluðust hægt yfir skarðið og í átt að bröttum brekkunum.

Ég var enn að taka mig til þegar fyrstu úr mínum leiðangri lögðu af stað. Það var töluverð óreiða á öllu og hver og einn lagði af stað í flýti þegar hann var tilbúinn. Fjöldi manna úr öðrum leiðöngrum voru að leggja af stað á sama tíma. Allir voru dúðaðir í dúngalla með ljós á höfðinu og ómögulegt var að þekkja nokkurn mann. Það var sérstakt að sjá öll þessi ljós streyma upp fjallið. Klukkan var 22:24 og ég vissi að þetta yrði löng nótt.

Ég tók fram úr nokkrum hópum klifrara og tókst að bera kennsl á Tom, Alan og Rob í þeim hópi. Ég gaf þeim merki en var ekki viss um hvort þeir þekktu mig. Ég þóttist skynja að Tom hefði ekki náð sér eftir hrakfarirnar daginn áður og Rob og Alan ættu líka erfitt. Ég vissi ekki nákvæmlega hvar hinir ferðafélagar mínir Bill, Dave og Ellen voru stödd en reiknaði með að þau væru á undan mér. Fyrsti áfanginn var að komast upp á svokallaðar Svalir (e. Balcony). Brekkan var brattari en ég átti von á og virtist endalaus. Það var ekki um annað að ræða en að einbeita sér að hverju skrefi fyrir sig. Ég kom mér upp þeim takti að taka þrjú lítil skref í einu og stoppa síðan til að anda. Hraðar var ekki hægt að fara sökum súrefnisskortsins. Kraftleysið var yfirþyrmandi og ég velti fyrir mér hvort ég myndi komast alla leið á tindinn. Það var löng og hættuleg leið framundan.

Ég klifrað einn um tíma, það var langt í aðrar klifrara fyrir ofan og neðan. Það var enn myrkur og upplifði ákveðna einmannaleikatilfinningu. Leiðin hafði legið beint upp bratta brekkuna en nú sveigði hún aðeins til hægri og brattinn minnkaði aðeins. Ég settist á stein og skipti um rafhlöðu í höfuðljósinu mínu sem var farið að dofna. Það kom klifrari á eftir mér og settist við hliðina á mér. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á að þetta var einn af sherpunum okkar. Við héldum áfram og ég þóttist sjá að það væri stutt í Svalirnar. Sherpinn var með talstöð og ég heyrði að Bill var að tala við búðirnar í Suðurskarði og fram kom að Tom, Alan og Rob væri snúnir við til búðanna. Við vorum því fjögur eftir í Adventure Consultants leiðangrinum sem vorum enn á uppleið auk þriggja sherpa. Ég fann fyrir töluverðri vanlíðan en hélt áfram að taka þrjú lítil skref og stoppa á milli til að anda ótt og títt.

 Loks náði ég upp úr brekkunni og upp á Svalirnar. Þarna var ágæt sylla og þar voru margir klifrarar að hvíla sig og fá sér nesti. Ég rakst á Bill og Dave sem voru að standa upp eftir stutta hvíld. Þeir köstuðu á mig kveðju en héldu síðan af stað og hurfu í myrkrið. Ég fékk mér nokkra sopa úr hitabrúsanum mínum og kreisti orkugel uppí mig en ég átti erfitt með að koma þessu niður. Ég helt áfram og nú láð leiðin á hrygg sem er Suð-Vestur hryggur Everest tinds. Það fór að blása svolítið og ég þurfti að píra augun og sá lítið sem ekkert framfyrir mig. Ætlaði þessi nótt aldrei að enda? Ég var farinn að þrá dagsbirtuna sem virtist aldrei ætla að gera vart við sig.

Brattinn jókst skyndilega og allt í einu var allt stopp fyrir framan mig. Ég leit upp og sá að það var verið að festa línur í mesta brattann undir Suðurtindi og allir klifrararnir biðu eftir að því verki væri lokið. Ég settist niður og var feginn að hvílast. Þar sem ég beið í halarófunni tók ég eftir einkennilegum bláma á himninum fyrir aftan mig. Það fór loksins að móta fyrir sjóndeildarhringnum og dögunin var innan seilingar. Eftir því sem birtan jókst opnaðist ný veröld í kringum mig, eða öllu heldur fyrir neðan mig. Nú blasti við hversu ógnar hátt uppi maður var staddur. Það fór nokkur fiðringur um mig að horfa niður í hyldýpið. Þegar dagsbirtan hafði svipt hulunni af þessu hrikalega umhverfi og það var hálf óraunverulegt að vera staddur hér í efstu hlíðum Everest.

Ég veit ekki hversu lengi ég beið en mér fannst það vera um 45 mínútur. Þá loksins fór röðin að mjakast áfram. Leiðin lá upp snarbratta kletta. Til hægri var snjóbrekka en hún virtist vera mjög hættuleg vegna snjóflóðahættu. Þegar klettabeltið var að baki tók við brött snjóbrekka. Nú fór ég allt í einu að missa kraftinn og það tók mig svolítinn tíma að átta mig á því að súrefniskúturinn minn var líklega búinn. Þar sem kúturinn og regulatorinn sem stýrir súrefnisflæðinu voru ofan í bakpokanum þá gat ég ekki lesið á loftþrýstingsmælinn sjálfur. Hér var snarbratt og ekki auðvelt að athafna sig. Ég bað sherpann, sem enn fylgdi mér, að athuga málið. Hann opnaði bakpokann minn og staðfesti að súrefnið væri búið. Ég var með auka kút í bakpokanum og setti súrefnistækin á hann. Ég hélt síðan áfram upp brattann. Loks náði ég upp á Suðurtind sem er 8.751 m. hár. Þetta var mikill áfangi. Nú fyrst var ég orðinn sannfærður um að ég myndi ná alla leið á toppinn. Það var samt enn langt eftir og hryggurinn yfir að Hillary-þrepi var ekki beint árennilegur. Til beggja handa var snarbratt um 3.000 metra fall niður Suð-Vesturhlíðina til vinstri og Kangshunghlíðina til hægri.

Hér á Suðurtindi hitti ég Bill, Dave, Ellen og Ang Dorjee. Samkvæmt áætlun áttum við að skipta um súrefniskút ef við værum komin á seinni kútinn. Planið var að skilja notaða kútinn eftir og eiga hann til góða fyrir niðurferðina. Ég fór að tala um þetta við Bill en ég náði engu sambandi við hann svo ég snéri mér að Ang Dorjee. Svarið sem ég fékk til baka var: "Sherpa will carry oxygen". Ég skildi hann þannig að ég fengi meira súrefni síðar þegar kúturinn kláraðist. Þetta var ekki eins og um hafði verið talað. Mér var illa við að breyta um áætlun á þessum stað enda er það grundvallarregla í svona ferðum að hafa skýra áætlun og fylgja henni út í ystu æsar. Ótal dæmi eru um að menn hafi hvikað settri áætlun með skelfilegum afleiðingum. Eitt þekktasta dæmið eru þær hörmungar sem áttu sér stað á þessum sama stað fimm árum áður. Ég átti hins vegar ekki um margt að velja og varð að treysta þessu.

Við lögðum af stað af niður af Suðurtindi og við tók hryggurinn yfir að Hillary-þrepi. Hryggurinn er örmjór og efst á honum slúta hengjur yfir Kangshung hlíðina. Klifrað er vestan megin í þessum hengjum þar til hryggurinn fer að rísa en þá er komið að Hillary-þrepi. Mér gekk vel að komast að þrepinu en þar var töluverð biðröð. Eftir langa bið kom loksins að mér að klífa þrepið. Ég hafði oft lesið um þennan faratálma og fannst sérstök tilfinning að fá loksins að spreyta mig á honum. Það voru margar línur sem héngu niður klettana og ég var ekki viss hverja ég ætti að velja. Ég setti júmmarinn (tól sem klemmir sig á línuna) á þá línu sem mér leist best á. Fyrst fór ég upp brattan snjóskafl en síðan tók við nær lóðrétt en stutt klettahaft. Síðan tróð ég mér inn í þrönga skoru. Að lokum þurfti ég að koma mér uppúr skorunni og var það töluvert átak. Ég fór nokkuð geyst upp þrepið og var alveg á öndinni þegar náði loks upp fyrir það. Þrepið var samt mun auðveldara en ég átti von á. Eftir að hafa náð andanum hélt ég áfram. Nú fór ég að brosa breitt því ég vissi að tindurinn var innan seilingar. Mér leið vel og ég naut þess að ganga síðust skrefin. En leiðin var mun lengri en ég átti von á.

Eftir töluverða göngu kom hæsti tindur Everest í ljós. Nú var takmarkið var innan seilingar en þá fann ég kraftinn þverra hjá mér. Súrefnisflæðið var hætt og ég áttaði mig á því að súrefniskúturinn væri tómur. Ég var búinn með báða kútana mína og varð því að klára síðasta hlutann án súrefnisflæðis sem tók gríðarlega á. Ég settist örmagna á tindinn. Klukkan var 10:15 og ég hafði því verið tæpa tólf tíma frá Suðurskarði. Ég hafði misst kraftinn hratt eftir að súrefniskúturinn kláraðist og þurfti nokkurn tíma til að ná mér áður en ég gat farið að fagna þessum stóra áfanga. Þetta var stórkostleg stund að standa á hæsta tindi heims. Ég virti fyrir mér útsýnið. Það var sérstakt að horfa niður á mestu fjallarisa heims á borð við Lhotse, Kanchenjunga, Makalu og Cho Oyu. Ég leit niður norðan megin til Kína og sá þar klifrara koma þar upp í átt til okkar. Mér fannst merkilegt að sjá þarna mann sem hafði lagt af stað norðan megin á fjallinu, frá Kína. Það var nokkur hópur af klifrurum á toppnum og stemmningin var góð. Veðrið hafði leikið við okkur allan tímann. Þetta var klárlega hæsta partý í heimi. Tíminn leið hratt. Eftir að hafa tekið nokkrar myndir og hringt heim var kominn tími til að leggja af stað niður. Ég var kominn með nýjan súrefniskút og við drifum okkur af stað.

Niðurferðin

Ég var feginn að leggja af stað því ég hafði nokkrar áhyggjur af niðurleiðinni enda var þreytan farin að segja til sín. Ég fikraði mig rólega niður að Hillary þrepinu en þar var nokkur biðröð eftir að komast niður. Sumir áttu í töluverðum vandræðum með að komast klakklaust niður. Þegar komið var að mér setti ég áttu (sérstak tól sem notað er við sig) á línuna og renndi mér fyrirhafnarlaust niður. Síðan tók við hryggurinn að Suðurtindi. Þegar ég átti stutt í brekkuna upp á Suðurtind bað ég sherpann sem var á eftir mér að auka súrefnisflæðið. Ég vildi fá aukinn kraft í glímunni við brekkuna upp á tindinn. Það er algengt að þetta sé gert á þessum stað til að flýta fyrir. Eftir að hann hafði stillt kranann fór ég að verða mjög slappur og komst ekkert áfram. Ég tók þrjú skref og var þá algerlega uppgefinn og þurfti að hvíl mig lengi. Ég var farinn að örvænta þegar mér loksins datt í huga að kanna súrefnisflæðið. Ég tók af mér bakpokann og sá að sherpinn hafði skrúfað fyrir en ekki frá krananum, þannig að ég var án súrefnis. Ég setti súrefnisflæðið á og hvílíkur munur! Ég stóð upp eins og nýr maður og klifraði örugglega upp á Suðurtind. Við héldum núna rakleiðis niður línurnar, renndum okkur með "arm wrap" aðferðinni. Við stoppuðum á Svölunum og ég drakk síðasta vatnsdreitilinn minn og kreisti smá orkugel uppí mig. Ég hélt síðan áfram niður gilin. Þegar ég var að fara niður brekkurnar frá Svölunum þykknaði hratt í lofti og þegar niður brekkuna var komið var komin dimm þoka og nokkur vindur. Þarna höfðu fjölmargir klifrarar safnast saman í hnapp. Minnugir hörmunganna sem gerðust hér sex árum áður vildi enginn taka þá áhættu að ráfa út í þokuna án þess að vita nákvæmlega hvar búðirnar væru. Við biðum því hér í von um að það myndi létta til. Ég var með áttavita í úrinu mínu og deginum áður hafði ég tekið áttavitastefnuna frá búðunum og að brekkufæti. Á meðan ég beið nýtti ég tímann til að taka áttavitastefnuna og reyna að gera mér grein fyrir hvar búðirnar væru. Ég þóttist vera nokkuð viss um stefnuna. Skyndilega létti til og búðirnar blöstu við nákvæmlega í þá stefnu sem ég hafði reiknað út. Ég dreif mig af stað síðasta spölinn. Fyrst var að fara yfir ísaða sprungusvæðið og síðan var flatur grjótmelur. Ég átti aðeins örstutt eftir í tjöldin þegar súrefnið kláraðist. Þetta var búinn að vera langur dagur. Ég var búinn að vera um 16 tíma á göngu og lítið sem ekkert borðað. Ég var auk þess mjög vansvefta þar sem ég hafði ekkert sofið síðustu tvær nætur. Það voru því erfið skrefin í átt að búðunum. Þegar ég átti nokkur skref eftir kom Ang Dorjee með heitt te handa mér sem ég þáði með þökkum. Heitt og sykrað teið gaf mér kraftinn til að klára síðasta spölinn. Ég skrölti að tjaldinu og lagðist inn og var ennþá í klifurbeltinu og með skó og mannbrodda á fótum. Ég var gjörsamlega úrvinda og hreyfði ekki legg né lið.

Ég lá lengi hálf vankaður í tjaldinu. Síðan skall á myrkur að það fór að hvessa. Ég átti jafn erfitt með að sofa og áður. Ég var andvaka þriðju nóttina. Úti geisaði stormur. Það var greinilega ekki stætt úti og tjaldið þrykktist niður að andlitinu á mér. Það var fárviðri úti en ég velti því ekkert fyrir mér. Mér leið illa og fór að verða mjög þyrstur. Ég lá því kvalinn af þorsta og óþægindunum klukkutímunum saman. Undir morguninn fór aðeins að lægja og ég þoldi ekki við lengur og fór úr svefnpokanum og í dúngallann og brölti út í vindinn, yfir í tjald sherpanna og náði mér í vatn. Við að fá vökva í kroppinn leið mér betur.

Loks var nóttin á enda og kominn tími til að halda niður á við. Mér fannst ég hafa lítið hvílst og ég væri lítið hraustari en þegar ég kom niður af tindinum. Ég fór í gallann, spennti á mig bakpokann og hélt af stað út á Genfar röðulinn. Mér gekk vel á niðurleiðinni enda hafði ég súrefni sem hjálpaði mikið. Ég stoppaði ekkert fyrr en í þriðju búðum. Þar höfðum við stuttan stans en héldum síðan rakleiðis áfram niður að rótum Lhotse hlíðar. Mér var mjög létt þegar við vorum loksins komin niður í Vesturdal. Nú var mesta hættan að baki.

Í 2. búðum hittum við Alan. Hann hafði gist í 3. búðum um nóttina og var frekar daufur og mjög slappur. Tom og Rob höfðu farið fyrr um daginn niður í grunnbúðir. Við hvíldumst í nokkra klukkutíma, borðuðum og drukkum. Síðan var haldið áfram niður Vesturdal og stefnan sett á grunnbúðir. Ég var mjög slappur, áreynsla og svefnleysi síðustu daga höfðu tekið mjög stóran toll. Þegar ég kom niður í fyrstu búðir rétt dragnaðist ég áfram. Einhvern veginn náði ég samt að skrölta áfram. Það tók okkur óratíma að fara niður ísfallið.

Það var komið myrkur þegar við fórum yfir síðustu stigana og komumst úr brattanum. Við sáum ljós framundan og vissum að þetta var hópur að taka á móti okkur. Í móttökusveitinni voru meðal annars pabbi og Steinar. Þetta voru miklir fagnaðarfundir. Steinar sagði mér síðar að hann hafi aldrei hitt jafn þreyttan mann og mig á þessari stundu. Við töluðum lengi saman á jöklinum en síðan héldum við niður í grunnbúðir. Þar var haldin mikil veisla og margt talað. Ég varð samt fljótlega að halda í svefntjaldið mitt. Það var ekki mikil orka eftir fyrir veisluhöld.

+ Myndir


                 
Kort
T÷lfrŠ­i
HŠ­8.850 m.
LandNepal
Toppadagur16. maÝ 2002
Dagafj÷ldi60 dagar
milli
FjallafÚlagi­ ehf
milli
Kt. 560909-1010
milli
fjallafelagid@fjallafelagid.is
milli
milli milli